Engin rök og engin málamiðlun

Smári McCarthy, formaður Pírata er ekki hrifinn af tillögu forsætisráðherra.
Smári McCarthy, formaður Pírata er ekki hrifinn af tillögu forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru nokkur atriði sem koma strax í hugann. Það hafa verið haustkosningar síðustu tvö skipti af því að ríkisstjórnir hafa hreinlega hrunið og það að festa það í sessi með þessum hætti er ekki endilega neitt sérstaklega jákvætt.“

Þetta segir Smári McCarthy, formaður Pírata, um þá tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að halda næstu alþingiskosningar næsta haust, eða 25. september 2021 nánar til tekið.

Núverandi kjörtímabili lýkur ekki fyrr en 28. október 2021 og ekki hefði þurft að boða til kosninga fyrr en þá. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar kallað eftir því að kosningar fari fram að vori í samræmi við hefð og til að gefa nýrri ríkisstjórn meira svigrúm til að móta fjárlagafrumvarp.

Festir í sessi núverandi ríkisstjórn og ákvarðanir hennar

Smári segir að haustið sé yfirleitt notað í fjárlög og það þurfi ávallt að fara vel yfir þau. Tillaga Katrínar hafi það í för með sér að fjárlagafrumvarp þurfi að vera komið fram fimm dögum eftir kosningar.

„Það þýðir að það verður fjárlagafrumvarp frá fráfarandi stjórn, og hvort það verði aðrir einstaklingar eða ekki sem mynda þá stjórn sem tekur við, þá er náttúrulega verið að festa í sessi núverandi ríkisstjórn og ákvarðanir hennar til allavega eins árs í viðbót,“ segir Smári og bætir við:

„Þessu til viðbótar þarf líka tíma fyrir nýja ráðherra að komast inn í sín störf, þekkja sín ráðuneyti og allt það þannig að það eru alveg ástæður fyrir því að kosningar eru yfirleitt í maí.“

„Vill fá að vera við völd eins lengi og hún mögulega getur“

Hann segir að með því að halda kosningar að hausti til sé verið að festa í sessi enn frekar eitthvað sem var gert upphaflega vegna „óeðlilegra kringumstæða“ og það sé verið að gera það „án þessi að það liggi fyrir nein rök önnur en þau að núverandi ríkisstjórn vill fá að vera við völd eins lengi og hún mögulega getur.“

Þá gefur Smári lítið fyrir orð Katrínar þess efnið að um málamiðlun hafi verið að ræða: „Ég veit ekki við hvern málum var miðlað en það er ekki mikil hamingja með þetta hjá okkur [Pírötum].“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert