Sex ný smit greindust í dag – níu samtals

Maðurinn sem smitaði sexmenningana kom til landsins 15. júlí og …
Maðurinn sem smitaði sexmenningana kom til landsins 15. júlí og fór ekki í heimkomusmitgátt vegna galla í skráningarformi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sex ný kórónuveirusmit greindust í dag til viðbótar við þau þrjú innanlandssmit og tvö smit sem greindust við landamæraskimun sem greint var frá fyrr í dag. Öll sex smit tengjast manninum sem kom til landsins 15. júlí og fór ekki í heimkomusmitgátt vegna galla í skráningarformi.

Allir sex einstaklingar höfðu verið settir í sóttkví eftir að áðurnefndur einstaklingur greindist jákvæður fyrir veirunni. Sá sem smitaði þá kom frá Eystrasaltsríki.

„Í heildina í því máli eru sjö núna í einangrun og það er verið að vinna að því að rekja smit í kringum þá. Smitrakningarteymið er að störfum en það er ekki alveg komið í ljós hvort og þá hversu margir þurfa að sæta sóttkví í kjölfarið,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Galli í skráningarforminu

Umræddur galli í skráningarformi er sá að ekki er skilyrði að skrá kennitölu á eyðublaðið sem er á ensku, og er aðallega hugsað fyrir erlenda ferðamenn. Þeir sem skrá sig með því eyðublaði eru því látnir fara í heimkomusmitgát eða aðra sýnatöku nokkrum dögum eftir komuna til landsins.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði landlæknis, segir að í sambandi við þetta þurfi að skoða tvennt.

„Annars vegar er það að reglugerðin kveður aðeins á um að heimkomusmitgát eigi við þá sem eru búsettir hér að staðaldri eða íslenska ríkisborgara sem koma hingað erlendis frá til heimsækja vini eða ættingja þó að þeir séu búsettir erlendis.“

„Einstaklingar sem eru með fasta búsetu erlendis en koma hingað til að vinna í lengri eða skemmri tíma eru í rauninni ekki skyldugir til þess að fara í þessa heimkomusmitgát og tvöfalda sýnatöku. En það er alveg i boði,“ segir hún og heldur áfram:

Ekki boðaðir í aðra sýnatöku

„Hitt atriðið er þegar þú skráir þig á enska eyðublaðinu, er ekki gert ráð fyrir því að þú verðir að skrifa kennitölu af því það er fyrst og fremst ætlað fyrir erlenda ferðamenn. Það þýðir að einstaklingar sem eiga kennitölu og eru hér komnir til lengri dvalar þó að þeir séu ekki með fasta búsetu eða lögheimili hér, þeir eru ekki sjálfkrafa skráðir í sýnatöku númer tvö ef þeir skrá ekki kennitöluna sina.“

Ef þeir skrá ekki kennitöluna sína þá fá þeir enga áminningu um að fara í aðra sýnatöku og mögulega ekki nógu góðar upplýsingar um að það sé rétt að þeir fari í aðra sýnatöku nokkrum dögum eftir komuna til landsins.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða, það er hvernig við stoppum í þetta gat og hvernig við vekjum athygli fyrirtækja sem eru með mikið af erlendu starfsfólki að það er í boði að það fari í sýnatöku númer tvö, ef þeir eru þátttakendur í samfélaginu,“ bætir hún við.

Fréttin var uppfærð klukkan 20:03.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert