Ásættanleg áhætta að opna landið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin gögn styðja það að íslenskt samfélag sé í þeirri stöðu sem það er nú vegna þess að tekin var ákvörðun um að opna landamærin fyrir ferðamönnum í síðasta mánuði. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is. Hún segir að áhættan sem fólst í opnuninni hafi verið ásættanleg.

Ýmsir, einkum tónlistarmenn og skemmtistaðaeigendur, hafa farið hörðum orðum um ferðaþjónustuna á samfélagsmiðlum í dag og kennt opnun landamæra um aukna útbreiðslu veirunnar hér á landi. Sagði Bubbi Morthens til dæmis að ferðabransinn réði förinni en að „við hin tökum höggið“. 

Þórdís tekur ekki undir það. „Við erum ekki í þessari stöðu út af því að við hleyptum ferðamönnum til landsins,“ segir hún og bendir á að Ísland hafi opnað landamæri með varkárari hætti en margar aðrar þjóðir með því að skima nær alla þá sem koma til landsins eftir að hætt var að krefjast tveggja vikna sóttkvíar af ferðalöngum.

Þórdís segir að landsmenn allir þurfi að taka til sín hertari sóttvarnareglur. „Við vitum það að við höfum verið töluvert slakari við að fylgja fjarlægðartilmælum [heldur en áður] og eins að smithættan er töluvert meiri þegar Íslendingar koma heim frá útlöndum heldur en frá erlendum ferðamönnum.“

Efnahagslegar afleiðingar skoðaðar

Á lista yfir sóttvarnaaðgerðir sem taka gildi á hádegi á morgun, föstudag 31. júlí, er að finna tilmæli sóttvarnalæknis um að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sinni sé ekki hægt að tryggja tveggja metra bil á milli „ótengdra aðila“.

Félag atvinnurekenda hefur sett spurningarmerki við orðalagið og þegar beint spurningum til stjórnvalda um hvort og þá hvernig aðstoð á borð við lokunarstyrki og stuðningslán verði útvíkkuð fyrir þau fyrirtæki sem fara að tilmælunum og hætta starfsemi.

Aðspurð segir Þórdís að engin ákvörðun hafi verið tekin um útvíkkun umræddra aðgerða. „Auðvitað vitum við að staða fyrirtækja er víða veik eftir allt sem á undan er gengið. [Þær aðgerðir] sem nú er verið að kynna eru til tveggja vikna,“ segir Þórdís. Hún segir að efnahagslegar afleiðingar verði vitanlega skoðaðar og ræddar í ríkisstjórn við fyrsta tækifæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina