Lag Bubba fær að hljóma í þinghúsinu

Frá innsetningarathöfn Guðna Th. Jóhannessonar fyrir fjórum árum.
Frá innsetningarathöfn Guðna Th. Jóhannessonar fyrir fjórum árum. mbl.is/Freyja Gylfa

Annað kjörtímabil Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, hefst á morgun og af því tilefni verður innsetningarathöfn í Alþingishúsinu, sem hefst klukkan 15.30.

Samkvæmt svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is verður engin athöfn í Dómkirkjunni að þessu sinni, til að gæta fyllstu varúðar vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þess í stað mun Agnes M. Sigurðardóttir biskup flytja blessunarorð á athöfninni í þinghúsinu.

Við athöfnina mun Ester Talia Casey flytja lagið Fallegur dagur eftir Bubba Morthens við undirleik Ingva Jóhannessonar og Andra Ólafssonar, ásamt kvenröddum úr Dómkórnum. Þá mun Sigrún Hjálmtýsdóttir flytja þjóðsöng Íslendinga við undirleik Kára Þormar dómorganista.

Innsetningarathöfninni verður útvarpað og sjónvarpað í Ríkisútvarpinu og hefst útsendingin klukkan 15.20.

mbl.is