Svartsýnni í gær en í dag

Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), segir algjöra óvissu ríkja um það hvort Reykjavíkurmaraþonið geti farið fram en ÍBR er framkvæmdaaðili hlaupsins sem samkvæmt óbreyttu skipulagi á að fara fram laugardaginn 22. ágúst.

ÍBR mun funda um gang mála á þriðjudag og þá gerir Frímann ráð fyrir að „einhverjar stærri ákvarðanir“ verði teknar.

„Við höfum átt í samtali við sóttvarnayfirvöld í allt sumar og núna eftir hertar sóttvarnaaðgerðir. Við gerum ekkert nema fá grænt ljós frá þeim. Það veit enginn hvernig hlutirnir verða eftir 10. ágúst eins og staðan er núna en það voru nú jákvæðari tónar á þessum fundi áðan þannig að ég get sagt að ég var svartsýnni í gær en ég er í dag,“ segir Frímann.

Frímann Ari Ferdinandsson.
Frímann Ari Ferdinandsson. Ljósmynd/ÍBR

4.000 skráðir til leiks

Spurður um minnsta mögulega fyrirvara til þess að taka ákvörðun um hvort hlaupið verði haldið segir Frímann að ÍBR vinni ekki með ákveðna dagsetningu.

„En því nær sem við komumst hlaupi því verra er að vera með einhverja óvissu, t.d. í sambandi við það hversu stórir hóparnir eiga að vera. Við höfðum áður miðað við 500 manna hópa en það þyrfti að stokka það allt saman upp miðað við núverandi takmarkanir,“ segir Frímann en um 4.000 þátttakendur hafa skráð sig til leiks. Óvíst er þó hvort allur sá fjöldi skili sér, t.d. allir þeir erlendu þátttakendur sem margir hverjir höfðu skráð sig til leiks í upphafi árs.

mbl.is