Tvö smit á Vestfjörðum

Tveir eru smitaðir af kórónuveirunni á Vestfjörðum.
Tveir eru smitaðir af kórónuveirunni á Vestfjörðum. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Tveir eru smitaðir af COVID-19 á Vestfjörðum. Í fyrradag kom erlendur ríkisborgari með ísfirskt lögheimili heim frá Evrópu og þegar hann var kominn heim hafði hann fengið bæði einkenni og svar um jákvæða niðurstöðu úr sýnatöku við landamæri.

Hinn einstaklingurinn er ferðamaður á húsbíl sem greindist smitaður við komuna til landsins. Ferðamaðurinn bíður í farsóttahúsi eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu, að því er segir í tilkynningu á facebooksíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

„Þessi smit undirstrika mikilvægi þess að bæði Íslendingar og erlendir ríkisborgarar sýni varkárni, líka við hér vestur á fjörðum sem höfum kannski vonað að við gætum sloppið vel þetta skiptið,“ segir Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, í tilkynningunni.

mbl.is