Langt í að hægt verði að treysta á vottorð

Upplýsingafundur almannavarna 4. ágúst. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller …
Upplýsingafundur almannavarna 4. ágúst. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Langt er í að hægt verði að treysta á vottorð sem segja til um að fólk hafi fengið kórónuveiruna og sé með mótefni og ekki stendur til að hleypa ferðamönnum hingað til lands með slíku skilyrði.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna, en greiningargeta vegna skimunar við landamæri Íslands er komin að þolmörkum og eru stjórnvöld að skoða leiðir til þess að takmarka fjölda ferðamanna sem hingað kemur.

Alma Möller landlæknir sagði tugi mismunandi mótefnaprófa á markaði, með mismunandi gæðum og misvel prófuð og að óskandi væri að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gæfi út leiðbeiningar er varða mótefnapróf og raunar væri það á dagskrá.

Þá sagði Þórólfur Guðnason að jafnvel væru miklar líkur á að verið væri að falsa slík vottorð.

Yfirvöld hérlendis gefa þeim, sem greinst hafa með kórónuveiruna og mælst með mótefni í kjölfarið, vottorð sem hægt er að nota innanlands en óvíst er hvort þau séu tekin gild erlendis.

mbl.is