Víðir er ekki með veiruna

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er ekki með COVID-19.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er ekki með COVID-19. Ljósmynd/Lögreglan

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn og hluti af þríeykinu fræga, er ekki með kórónuveiruna. Þetta kom í ljós í dag eftir að hann fór í sýnatöku í morgun, segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Víðir vaknaði með einkenni sem eru þekkt þegar fólk er með COVID-19 og óskaði í kjölfarið eftir sýnatöku og hélt sig heima hjá sér. RÚV greindi fyrst frá.

„Hann gerði það hárrétta í stöðunni þegar hann vaknaði í morgun með hálssærindi og höfuðverk. Hann lét samstarfsfólks sitt vita hvernig staðan væri og sagðist ætla að halda sig heima í dag,“ segir Jóhann og ítrekar það sem Víðir og aðrir hafa sagt margoft:

„Það er náttúrulega það sem fólk á að gera ef það finnur til einkenna – að halda sig heima. Hann óskaði eftir sýnatöku gegnum heilsugæslustöðina, fór í morgun og fékk niðurstöðu.“

Jóhann segir ekki ljóst á þessari stundu hvort Víðir mæti til vinnu á morgun – það verði að taka stöðuna dag frá degi. Honum þykir ekki ólíklegt að Víðir óski eftir annarri sýnatöku í ljósi stöðunnar sem hann er í.

Hvað aðra í þríeykinu varðar sem og aðra í sóttvarnateyminu og starfsmenn hjá almannavarnadeild segir Jóhann alla vera við hestaheilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert