Drífa gefur kost á sér áfram í forystu ASÍ

Drífa Snædal, forseti ASÍ, gefur áfram kost á sér í …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, gefur áfram kost á sér í forsetaembættið. Ljósmynd/ASÍ

Drífa Snædal, forseti ASÍ, gefur kost á sér áfram í embættið á þingi ASÍ sem haldið verður í október. Hún greinir frá þessu í vikulegum pistli sínum í dag, en Drífa tók var kjörin í embættið á þingi ASÍ fyrir tveimur árum.

Í pistlinum fer Drífa yfir stöðuna sem blasir við á vinnumarkaði, meðal annars vegna kórónuveirunnar. Þá sé framundan vinna við að meta hvort forsendur kjarasamninga frá í apríl á síðasta ári hafi staðist. Þrjár forsendur þess eru að kaupmáttur hafi aukist, vextir lækkað og að stjórnvöld hafi staðið við gefin loforð. „Það liggur fyrir að kaupmáttur hefur aukist og vextir hafa lækkað en út af standa fjölmörg þeirra verkefna sem stjórnvöld gáfu loforð um,“ segir Drífa.

Forsendunefnd skipuð fulltrúm ASÍ og SA mun á næstunni koma saman og úrskurða um hvort forsendurnar hafi staðist. Segir Drífa að stjórnvöld þurfi að koma að þessu samtali bæði þar sem þau hafa ekki staðið að fullu við sinn hluta samkomulagsins og þar sem aðstæður á vinnumarkaði eru sérlega krefjandi nú um stundir og verða það áfram.

Hún gerir einnig aðgerðir Icelandir gagnvart flugfreyjum að umtalsefni og segir að þessi „sumargjöf“ Icelandair muni „elta okkur inn í haustið og lita þau verkefni sem framundan eru.“ Segir hún jafnframt framgöngu SA í málefnum Icelandair og stuðning þeirra við aðgerðir flugfélagsins í sumar hafa verið ólíðandi.

Drífa segir þessar tilraunir SA og Icelandair ekki látnar líðast. „Það var örlagaríkur föstudagur í júlí þegar stjórnendur Icelandair lýstu því yfir að þeir ætluðu að sniðganga viðsemjendur og semja við aðra um kaup og kjör. Ekki var upplýst um hverjir „þessir aðrir“ voru en það skal sagt eins skýrt og mögulegt er að það er ekki í hendi atvinnurekenda að velja og hafna við hverja þeir semja.“ Segir hún þetta þekkta aðferð út í heimi, þar sem atvinnurekendur reyni að stofna eigin stéttarfélög og ganga til samninga við þau. „Það verður ekki látið viðgangast á íslenskum vinnumarkaði.“

Drífa kallar eftir því að hækka verði atvinnuleysisbætur strax, þar sem þær hafi ekki haldið í við lágmarkslaun.  „Þetta er ekki tíminn til að skera niður í ríkisrekstri enda getur það dýpkað kreppuna með alvarlegum og langvinnum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélagið allt,“ segir hún í pistlinum.

mbl.is