Nýtt teymi stýrir aðgerðum út 2021

Þríeykið fræga hefur hingað til stýrt aðgerðum gegn veirunni að …
Þríeykið fræga hefur hingað til stýrt aðgerðum gegn veirunni að mestu. Ekki er þó útlit fyrir að verið sé að skipta þeim út með neinum hætti Ljósmynd/Lögreglan

Skipa á fimm manna verkefnateymi sem annast á framkvæmd aðgerða vegna kórónuveirunnar. Sóttvarnalæknir mun leiða teymið og á það að starfa út árið 2021. Heilbrigðisráðherra hefur boðað til samráðs lykilaðila þann 20. ágúst um áframhaldandi aðgerðir gegn covid-19.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að ljóst sé að „íslenskt samfélag sé nú að hefja annan kafla í glímunni við covid-19,“ og að beita þurfi aðgerðum innanlands sem og á landamærum til að hefta megi útbreiðslu veirunnar.

Margháttað samráð hafi verið viðhaft síðan veiran hóf að herja á landsmenn í voru og að nú verði að skapa samráðsvettvang til langs tíma, enda sé um kaflaskil að ræða í baráttunni við veiruna.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir að í undirbúningi sé vinnustofa sem þjóna muni sem samráðsvettvangur lykilaðila í baráttunni við veiruna. Í kjölfar af vinnustofunni muni sóttvarnalæknir svo leiða fimm manna teymi sem stýra á framkvæmd aðgerða gegn kórónuveirunni út árið 2021.

Hingað til hefur hið fræga þríeyki stýrt aðgerðum gegn kórónuveirunni að mestu. Ekkert útlit er þó fyrir að verið sé að skipta þeim út með neinum hætti.

Tilkynninguna í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert