Landvættir leituðu í smiðju Svía

Frá Jökulsárhlaupinu í fyrra.
Frá Jökulsárhlaupinu í fyrra. Ljósmynd/Helga Þyrí Bragadóttir

Kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn hjá þeim sem vilja komast í hóp Landvætta því öllum fjórum þrautunum sem jafnan er keppt í hefur verið aflýst, nú síðast hjólreiðakeppninni Blue Lagoon Challenge.

Áður en veiran fór á stjá hlutu þeir nafnbótina eftirsóttu sem luku við fjórar þrautir á einu ári, þ.e. Fossavatnsgönguna, Jökulsárhlaupið eða Þorvaldsskokkið, Urriðavatnssundið og Blue Lagoon Challenge.

Fossavatnsgangan fór fram í fyrra en engin á þessu ári.
Fossavatnsgangan fór fram í fyrra en engin á þessu ári. Ljósmynd/Fossavatnsgangan

Tvö ár í stað eins vegna veirunnar

Fossavatnsgöngunni var fyrst aflýst í vor og þá var ákveðið að gefa fólki tvö ár í stað eins til að ljúka við þrautina vegna kórónuveirunnar.

Eftir það gengu skipuleggjendurnir enn lengra, að sögn formannsins Ingvars Þóroddssonar. Leitað var í smiðju Svía sem hafa haldið úti „sænska klassíkernum“ í um hálfa öld. Þeir höfðu brugðið á það ráð vegna veirunnar að nóg var að ljúka við sams konar þrautir á sams konar tímabili og senda inn staðfestingu þess efnis. Þetta fyrirkomulag er því í gildi núna hér á landi en Ingvar kveðst ekki vita hversu margir þátttakendurnir eru. Að minnsta kosti er ljóst að enginn lýkur við hefðbundnu þrautina á þessu ári.

„Þeir sem taka þetta á þennan hátt með þessu frjálsræði fá stjörnumerkingu í félagatal sem er merki þess að þeir hafi orðið Landvættir án þess að fara í hinar hefðbundnu þrautir,“ segir hann.

Synt í Urriðavatni.
Synt í Urriðavatni. Mynd/Sigurður Aðalsteinsson

Sænska þrautin erfiðari 

Sænska þrautin er annars mun erfiðari en sú íslenska, að sögn Ingvars. Til dæmis þarf að hjóla 315 kílómetra á malbiki í stað þess að hjóla 60 kílómetra á malbiki og möl hérlendis.

Alls hafa 513 manns hlotið nafnbótina Landvættur. Í fyrra luku um 140 manns við þrautina, sem var um tvöfalt meira en árið þar áður. „Það er líklegt að það bætist við um 200 manns á næsta ári. Það verður vonandi fjör næsta sumar,“ segir hann hress.

Frá Blue Lagoon Challenge árið 2018.
Frá Blue Lagoon Challenge árið 2018.
mbl.is