Reyndu að mýkja höggið

Frá Menningarnótt 2019
Frá Menningarnótt 2019 mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipuleggjendur Menningarnætur vissu að litlar líkur á að Menningarnótt myndi fara fram með hefðbundnu sniði í ár, en undirbúningur hátíðarinnar bar þess merki. Þetta segir Arna Schram, sviðstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar í samtali við mbl.is

Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að Menningarnótt í Reykjavík hafi verið aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. Öllum viðburðum sem tengjast Menningarnótt verður aflýst, en vegna ráðstafana sem gerðar voru í undirbúning hátíðarinnar verður höggið mýkra en það annars yrði.

Einhverjir höfðu þegar fengið vilyrði um styrk til að halda viðburði, en að sögn Örnu voru aðilar beðnir um að hinkra með skipulagningu viðburða. Margir viðburðir Menningarnætur eru sjálfsprottnir, líkt og gallerí eða opnar vinnustofur, og líklegt er að aflýsing hátíðarinnar komi meira niður á slíkum viðburðum.

Hugmyndafræðin gekk ekki upp

„Þegar Covid-19 kom hingað til lands og sóttvarnaraðgerðir hófust, þá vissum við að það yrði ólíklegt að við gætum haldið Menningarnótt með hefðbundnu sniði.“

Til stóð að hátíðinni yrði dreift yfir tíu daga í staðin fyrir að halda hana á einum degi. „Við vorum undirbúin. Það vissu allir að þetta gæti allt eins gerst, ekki síst í ljósi síðustu fregna og hvernig þessar sóttkomureglur og samkomutakmarkanir voru hertar,“ segir Arna.

 „Menningarnótt hefur gengið út á það að fá fólk til að koma niður í bæ og lífga upp á miðbæinn. Það er ekki hægt að halda úti þeirri hugmyndafræði með þessar samkomureglur, og þá er eins gott að aflýsa, og það er bara ábyrg niðurstaða í ljósi aðstæðna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert