Sóttvarnareglur verði líka á ensku

Sundlaug Akureyrar
Sundlaug Akureyrar mbl.is/Þorgeir

Lögreglan á Akureyri hafði eftirlit með veitingahúsum í bænum í gærkvöldi og kannaði ráðstafanir varðandi sóttvarnir.

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að niðurstaðan hafi orðið að búið sé að fækka borðum og setja miða og spritt á áberandi staði um svæðin. Þá var búið að setja miða á útiborð um að bannað væri að færa þau.

Gefin voru tilmæli um að upplýsingar um sóttvarnaaðgerðir, sérstaklega miðar á útisvæðum, yrðu líka á ensku.

Vel hefur viðrað á Akureyri á síðustu dögum svo nokkuð hefur verið um brot á tveggja metra reglum á útisvæðum veitingahúsa.

Lögreglan hafði einnig eftirlit í Sundlaug Akureyrar. „Þar var greinilegt að starfsmenn eru að gera það sem þeir geta, en það sem vantar upp á er betri samvinna við viðskiptavini. Að þeir virði þessar reglur, og að þeir virði þau tilmæli sem eru í gildi og eru tíunduð með skiltum víðsvegar,“ segir Jóhannes.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur einnig haft eftirlit með veitinga- og skemmtistöðum í umdæminu.

Bjarney Sólveig Annelsdóttir segir að allir staðir sem lögreglan hafði eftirlit með hafi verið til fyrirmyndar og lögregla hafi ekki þurft að hafa frekari afskipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert