Gekk í vegi fyrir bíl

Í myndbandi sem Elías Þórsson setti inn í Facebook-hópinn Samtök um bíllausan lífsstíl sést hvernig gangandi vegfarandi gengur í mestu makindum í vegi fyrir bíl á þeim hluta Laugavegar sem er göngugata. Bílstjóri bílsins heyrist svo flauta á manninn sem virðist ekkert kippa sér upp við að bíllinn komist vart vegar síns. Elías býr við Laugaveg og segir hundruð bíla keyra göngugötuna á degi hverjum. Aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar segir lögin skýr.

 „Þetta er bara ógnandi hegðun" 

„Það eru ótrúlega margir sem keyra hérna og eru bara með skæting þegar maður bendir þeim á að þeir séu að keyra á göngugötu,“ sagði Elías þegar blaðamaður mbl.is heyrði í honum í dag.

Hann sagði jafnframt að oft séu bílar sem keyri göngugötuna á 30 til 40 kílómetra hraða á klukkustund. „Þetta er bara stórhættulegt. Ef fólk er þarna í leyfisleysi, hver er þá munurinn á þessu og að keyra bíl á 40 kílómetra hraða inn á torg þar sem bílaumferð er ekki leyfð?“

Elías, sem aldrei hefur átt bíl, sagðist langþreyttur á hve tilætlunarsamir margir bílstjórar séu. Fólk haldi að það komist bara upp með að gera hvað sem er. Eitt skipti gerði Elías lögreglu viðvart um að ekið væri of hratt um göngugötuna.

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild, segir í samtali við mbl.is að lögin séu skýr. „Löggjafinn hefur ákveðið með 10. grein umferðarlaga að umferð vélknúinna ökutækja sé óheimil um göngugötur, nema ef um sé að ræða handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, akstursþjónustu fatlaðra, lögreglu, slökkvilið og sjúkrabíla og vörulosun. Hendur borgaryfirvalda eru því bundnar og verða þau að heimila ákveðna umferð um göngugötur í borginni.“

Borgarstjórn samþykkti fyrr á árinu að hluti Laugavegar verði göngugata …
Borgarstjórn samþykkti fyrr á árinu að hluti Laugavegar verði göngugata til frambúðar. mbl.is/Eggert

Verða að gæta ýtrustu varkárni

Guðbrandur segir að um 7-8.000 manns séu handhafar stæðiskorta sem heimili þeim að keyra um göngugötur. Það sé því eðlilegt að einhver bílaumferð sé um göngugöturnar þótt hún sé minni en gengur og gerist á öðrum götum. „Ökumenn vélknúinna ökutækja á göngugötum verða líka að gæta ýtrustu varkárni og huga sérstaklega að gangandi vegfarendum og víkja fyrir þeim.“ Hámarkshraði vélknúinna ökutækja á göngugötum er 10 kílómetrar á klukkustund.

Guðbrandur segir það viðbúið að reglunum fylgi ákveðin vandkvæði. Þegar hluta ökumanna er heimilt að aka einhvers staðar en öðrum ekki þá megi gera ráð fyrir að misskilningur verði. Lögin séu hins vegar skýr. Vel sé merkt hverjir megi aga um göngugötur og ökumönnum beri skylda að fylgja því. Aðspurður segir hann nokkuð mikið hafa borið á því í sumarbyrjun að fólk keyrði göngugötuna á Laugavegi í leyfisleysi. Sekt við því broti er 20 þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina