Fjölgun smita rakin til ungs fólks

Ungt fólk í Marineterrein í Amsterdam
Ungt fólk í Marineterrein í Amsterdam AFP

Ein helsta skýringin á fjölgun kórónuveirusmita má rekja til ungs fólks í löndum eins og Hollandi, Frakklandi, Þýskalandi og Spáni. Um 40% nýrra smita í þessum löndum eru meðal fólks á þrítugs- og fertugsaldri. Þetta kemur fram í grein á Guardian og svipað kemur fram í umfjöllun BBC í dag.

Á Íslandi eru 46 af þeim 116 sem eru í einangrun á aldrinum 18-29 ára og 18 á fertugsaldri. Þannig að hlutfallið er enn hærra á Íslandi eða 55,2%.

Talskona embættis landlæknis í Hollandi, Joba van den Berg, segir að ungt fólk fylgi ekki nægjanlega þeim sóttvarnareglum sem gildi í landinu og 70% nýrra smita megi rekja til einkasamkvæma.

Hún segist skilja vel að það geti reynst þrautin þyngri að fylgja þessum reglum yfir sumarið, þegar fjölmargar veislur eru haldnar, svo sem partý, brúðkaup og fjölskyldufagnaðir. „En allt of margir eru of nálægt hver öðrum og þeir eru uppspretta geysilegrar fjölgunar nýrra smita,“ segir van den Berg í samtali við BBC. Hún segir að nú greinist um 600 ný smit á dag í stað 40 áður.

Van den Berg á ekki von á því að hollenska ríkisstjórnin muni beita breska ríkið aðgerðum fyrir að hafa hert reglur varðandi komu fólks frá Hollandi til Bretlands. Frá og með morgundeginum þurfa ferðalangar sem þaðan koma að fara í 14 daga sóttkví við komuna til Bretlands. „Samskipti okkar eru ekki á þann hátt. „Það byggir á staðreyndum ekki tilfinningum,“ segir hún.

AFP

Guardian hefur eftir  heilbrigðisstofnunum víðsvegar í Evrópu að fjölgun smita megi rekja að miklu leyti til ungs fólks. Óttast er að þetta þýði að kórónuveiran muni fljótlega dreifast meðal viðkvæmra hópa. 

Þetta er ólíkt því sem var í mars og apríl þegar flestir þeirra sem greindust með COVID-19 var eldra fólk. 

Í gær voru staðfest 1.445 smit í Þýskalandi og hafa þau ekki verið jafn mörg á einum sólarhring þar í þrjá mánuði. Að sögn heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, eru ný smit meðal ungs fólks mjög áberandi. Meðalaldur smitaðra er nú 34 ár og hefur ekki verið lægri frá því faraldurinn braust út. 

Upplýsingar frá Robert Koch stofnuninni sýna að 37,55 smita eru í aldurshópunum 20-29 ára og 30-39 ára. Í Hollandi er þetta hlutfall 41% í þessum aldurshópum.

AFP

Samkvæmt sóttvarnastofnun Frakklands, Santé Publique, voru ný smit í gær 2.669 talsins. Er ný­gengi veirunn­ar sagt 45 í aldursflokknum 20-29 ára  í stað 7 í byrjun maí. 

Með ný­gengi er átt við fjölda smita sem greinst hafa síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa. 

Í aldurshópnum 30-39 ára er nýgengi smita komið í 26,5 í stað 6,1 í maí en í aldurshópnum 80-89 hefur hlutfallið fallið um helming og hjá þeim sem eru yfir nírætt er það 13 í stað 60. 

Í Belgíu, þar sem 623 greinast að meðaltali á dag, eru 38% smita í aldurshópnum 20-39 ára en hjá þeim sem eru yfir áttrætt er hlutfallið 5,5% í stað 30% áður. 

Á Spáni eru yfirleitt um 3.400 ný smit á sólarhring þessa dagana. 22% þeirra eru 20-29 ára og 15% eru á fertugsaldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina