Eins og að losa tappann úr kampavínsflösku

Horft yfir Grímsvötn.
Horft yfir Grímsvötn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir rétt að líta á gos í Grímsvötnum sem ákveðinn möguleika, sem er þó ekki líklegri en að það hlaupi einungis undan Grímsvötnum. 

Um helgina var um stund útlit fyrir að hlaup væri líklega að hefjast í Grímsvötnum, en við nánari athugun kom í ljós að snjór í kringum staur sem tengdur er GPS-mæli á fjallinu var farinn að bráðna, en við það hallaði staurinn og benti það til þess að hlaup væri að hefjast undan Grímsvötnum. GPS-mælar sýndu svo í kjölfarið hækkun á yfirborði á ný og er því ekki talið á þessum tímapunkti að hlaup sé að hefjast. 

„Þessi atburðarás núna um helgina var bara misskilningur sem hefði svo sem ekkert þurft að eiga sér stað,“ segir Magnús í samtali við mbl.is. 

Magnús segir ýmislegt benda til þess að Grímsvötn séu tilbúin í gos. 

„Það eru svona vissar líkur til þess að þegar það hleypur úr Grímsvötnum næst gæti það framkallað gos. Það eru mörg dæmi um það úr fortíðinni, síðast árið 2004, þar áður 1934, 1922 og svo oft á 19. öld, en í langflestum tilfellum framkalla Grímsvatnahlaup ekki eldgos. Það þarf að fara saman að eldstöðin sé tilbúin í gos og að vatnsstaðan sé há svo að þegar hún svo sígur sé þrýstiléttirinn nægur til að hleypa gosinu upp. Ef þetta tvennt fer saman eru vissar líkur á gosi,“ segir Magnús. 

Grímsvötn.
Grímsvötn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Magnús segir að ef gos verði í Grímsvötnum verði það að öllum líkindum talsvert minna en síðast þegar gaus á svæðinu árið 2011. Þá varð mikið öskufall víða í nágrenni Grímsvatna sem hafði umtalsverðar afleiðingar fyrir bændur á svæðinu. Mælingar gefi blandað mynd af því hvort að líkur séu á gosi í ár. 

„Núna eru vissar líkur á að þetta geti gerst vegna þess að það eru liðin 9 ár frá síðasta gosi, það eru GPS-mælingar sem sýna að kvikuholið hefur verið að þenjast út og það eru vísbendingar um að Grímsvötn séu að verða tilbúin í gos. En það sem mælir á móti því að það sé að koma gos miðað við reynslu síðustu tveggja áratuga er að jarðskjálftavirkni í Grímsvötnum síðustu mánuði hefur ekki verið mikil. Fyrir síðustu gos, alveg frá árinu 1998, hefur jarðskjálftavirkni farið vaxandi árið, eða mánuðina fyrir gos. Núna er ekki hægt að tala um að það séu merki um slíkt. Þannig að það eru bæði rök með og á móti því að það geti orðið eldgos næst þegar það hleypur,“ segir Magnús.

Gos fylgir ekki alltaf hlaupi 

Magnús segir að rétt eins og eldgos fylgi sjaldnast hlaupi undan Grímsvötnum, geti gosið án þess að hlaup verður. 

„Gosin 1983, 1998 og 2011 urðu öll án þess að það varð hlaup sem kom þeim af stað. En ef við horfum aftur til 19. aldar var þetta ansi algengt og fram eftir 20. öldinni. Ef að vatnsgeymirinn er stór, ef það er mikið vatn sem safnast upp eins og gerðist til dæmis árið 2004, má vera að eldstöðin og vatnsgeymirinn hafi í rauninni stillt sig saman, þrýstiléttirinn var það mikill að hann í rauninni hleypti af stað gosi. Við vitum ekki hvort að þetta ætli að hegða sér aftur svona, en ef við horfum aftur til 2004 höfðum við verið að fylgjast með í góðan mánuð og það var mikil jarðskjálftavirkni og annað sem gerði það að verkum að við vorum mjög undir það búin að það gæti komið gos,“ segir Magnús. 

Grímsvötn.
Grímsvötn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Eins og að losa tappa úr kampavínsflösku 

Magnús segir að umræðan um Grímsvötn snúist núna um að það sé möguleiki á að það gjósi og að við þurfum að vera undir það búin, en að líkurnar á því séu þó ekkert endilega miklar. 

„En Grímsvötn hafa þessa sérstöðu, það er vatn undir ísnum sem safnast fyrir og þungi vatnsins hefur þau áhrif á þrýstinginn að þegar hann minnkar getur orðið gos. Þetta er svona eins og þegar við tökum tappann úr kampavínsflösku, þegar búið er að losa nægilega um þrýsting skýst tappinn upp,“ segir Magnús. 

Magnús bendir á að gos í Grímsvötnum séu oftast ekki stór. 

„Flest eldgos í Grímsvötnum eru ekkert svo stór. Það var mjög stórt gos sem kom fyrir 9 árum, stærsta gos í Grímsvötnum í 140 ár, en flest eru þau ekkert mjög stór en geta þó truflað flugumferð og það verður oft öskufall sem nær eitthvað út fyrir jökulinn. En yfirleitt valda þau ekki miklu tjóni. Það er hins vegar möguleiki á því að það gjósi á öðrum stað en vanalega gýs og þá gæti atburðarásin verið öðruvísi. En yfirleitt gerist það miklu sjaldnar, virðist gerast á þessu svæði á svona 50-70 ára fresti,“ segir Magnús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert