Fáir tilbúnir að fara í fimm daga sóttkví

Brekkulækur í Miðfirði.
Brekkulækur í Miðfirði. Ljósmynd/Aðsend

Á Brekkulæk í Miðfirði reka Arinbjörn Jóhannsson og Claudia Hofman ferðaþjónustu. Þau halda úti gistiheimili á svæðinu, ásamt því að reka ferðaskrifstofu sem býður upp á hesta- og gönguferðir. 

Claudia og Arinbjörn hafa rekið ferðaþjónustuna í 42 ár. Í samtali við mbl.is segir Claudia að nokkur samdráttur hafi verið hjá þeim í sumar sökum heimsfaraldurs kórónuveiru, þá sérstaklega í gistingunni. 

„Við erum ekki bara með gistingu heldur líka ferðaskrifstofu þar sem við bjóðum upp á hesta- og gönguferðir. Það hefur gengið nokkuð vel með þessa hópa sem við erum að bóka í gegnum ferðaskrifstofuna, en gistingin hjá okkur hefur bara verið um helmingur af því sem hún var, yfirleitt Danir og fólk frá Þýskalandi en eitthvað af frönskumælandi fólki líka. Núna er þetta allt búið, við erum enn þá með tvo hópa bókaða í hestaferðir, en það er enginn tilbúinn að koma í fimm daga sóttkví áður. En við höldum í vonina að það kannski breytist eitthvað,“ segir Claudia. 

„Ég held að ekkert svona lítið gistiheimili gæti lifað af bara með gistingu. Gistingin hjá okkur væri ekki nóg til að lifa af held ég,“ bætir Claudia við. 

Dóttirin ekki mikið fyrir þrif

Á veturna halda Claudia og Arinbjörn úti norðurljósaferðum og eru vanalega með fólk hjá sér um áramótin, en Claudia segir að það verði að koma í ljós hvernig fari með ferðaþjónustuna.

Claudia segir að álagið hafi verið mikið í sumar þar sem ekki var hægt að hafa starfsmenn í vinnu.

„Í sumar var ekki hægt að hafa starfsmenn svo ég hef þurft að gera mikið sjálf, elda, sjá um herbergin og ferðaskrifstofuna. Við erum með starfsmenn allt árið á skrifstofunni, en ég sá alveg um gistinguna og veitingastaðinn. Við eigum 14 ára dóttur og hún hjálpar Arinbirni í hestaferðunum. Hún hjálpar líka stundum til á gistiheimilinu, aðallega við þjónustuna, hún er ekki mikið fyrir þrif,“ segir Claudia hlæjandi og bætir við að þrátt fyrir erfiðari rekstur en oft áður vegna veirunnar, sé ekkert annað í boði en að vera jákvæður og halda í vonina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka