„Ég var að verjast rangfærslum“

Sigmar Guðmundsson, fyrrverandi ritstjóri Kastljóss, og fréttamaðurinn Helgi Seljan, sem …
Sigmar Guðmundsson, fyrrverandi ritstjóri Kastljóss, og fréttamaðurinn Helgi Seljan, sem hafa báðir verið kærðir til siðanefndar Ríkisútvarpsins af Samherja.

„Ég var ekki að blanda mér í pólitíska almenna umræðu eða umræður um þjóðmál heldur var ég að bregðast við myndbandi sem var uppfullt af rangfærslum um fréttamál sem var birt í þætti sem ég var ritstjóri yfir,“ segir Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður RÚV og fyrrverandi umsjónarmaður Kastljóss, spurður um réttmæti kæru Samherja vegna ummæla hans og nokkurra fréttamanna Ríkisútvarpsins. 

Rangfærslur um vinnubrögð

Lögmaður Sam­herja hef­ur lagt fram kæru fyr­ir siðanefnd Rík­is­út­varps­ins á hend­ur ell­efu nafn­greind­um frétta- og dag­skrár­gerðarmönn­um vegna meintrar þátt­töku þeirra í þjóðfélagsum­ræðu um mál­efni Sam­herja á sam­fé­lags­miðlum, þar á meðal Sigmari. 

„Ég var að verjast rangfærslum um vinnubrögð í þætti sem ég bar ábyrgð á,“ segir Sigmar í samtali við mbl.is en hann var yfirumsjónarmaður Kastljóss þegar fjallað var um skjal frá Verðlagsstofu í þætti um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum. 

Í kæru Samherja til siðanefndar RÚV er talið að Sigmar hafi gerst brotlegur við  4. mgr. 3. gr. siðareglna Ríkisútvarpsins, með eftirfarandi færslu sem Sigmar birti á Facebook 11. ágúst:

„Ég hvet fólk til að lesa þessi skrif. Og ég vona að fólk gefi sér tíma í að skoða bæði þennan lygavaðal sem Samherji hefur klippt saman og einnig umfjöllun Kastljós[s] um málið á sínum tíma. 

Þar sjá menn meðal annars að þessi stórkostlega rannsóknaruppgötvun Jóns Óttars um að Helgi hafi gengið á milli stofnana og rætt við skattrannsóknarstjóra var nú ekki meira leyndó en svo að frá samskiptunum er gerð rækileg grein fyrir í umfjölluninni sjálfri.

Þá má einnig sjá í þessum Kastljósþætti að Samherja var boðið að tjá sig um málið áður en umfjöllunin fór í loftið, þvert á það sem sagt er í þætti Samherja. Annað fer Þóra vel yfir í sínum skrifum sem allir ættu að lesa. Kastljósþáttinn sjálfan má svo sjá hér í athugasemd fyrir neðan.“

Taldi Samherji auk þess 10 aðra fréttamenn brotlega við 4. mgr. 3. gr. siðareglna Ríkisútvarpsins, sem hljóðar svo:

„Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ.á m. á samfélagsmiðlum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert