Svandís birtir skýrslu um dánaraðstoð

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur birt umbeðna skýrslu um dánaraðstoð.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur birt umbeðna skýrslu um dánaraðstoð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur nú lagt fram skýrslu um dánaraðstoð, að beiðni Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Þar kemur fram að eftir því sem næst verður komist sé ekkert hinna norrænu landanna að undirbúa lagabreytingar á þessu sviði en þau ríki sem veita beina dánaraðstoð eru Belgía, Holland, Kanada og Lúxemborg.

Þau ríki sem veita læknisaðstoð við sjálfsvíg, sem telst til dánaraðstoðar, eru Belgía, Finnland, Holland, Kanada, Lúxemborg og Sviss. 

Skoða þyrfti sjónarmið á sviði siðferðis og réttinda

Í skýrslunni er fjallað um þróun lagaramma í löndum þar sem dánaraðstoð er leyfð, tíðni, aðstæður og skilyrði dánaraðstoðar í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er ekki leyfð og þar með leitast við að draga saman upplýsingar efnið á hlutlausan hátt. 

Til þess að afmarka efnistök skýrslunnar er yfirhugtakinu dánaraðstoð skipt í fjögur meginhugtök sem byggjast á því um hve mikið inngrip sé að ræða í líf sjúklings; líknarmeðferð, óbein dánaraðstoð, læknisaðstoð við sjálfsvíg og loks bein dánaraðstoð en ekki er sjálfgefið að fella líknarmeðferð undir dánaraðstoð. 

Í niðurlagi skýrslunnar segir að hugsanlega þyrfti að skoða sjónarmið sem heyra undir önnur kerfi en heilbrigðiskerfið þar sem dánaraðstoð kemur inn á marga þætti, svo sem siðferði, lífsskoðanir og réttindi fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert