Framganga Róberts í Tyrklandi sögð hlutdræg

Róbert Spanó eftir að hann tók við heiðursnafnbót við háskólann …
Róbert Spanó eftir að hann tók við heiðursnafnbót við háskólann í Istanbúl. AFP

Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, er sagður hafa hafnað því að funda með öðru fólki en liðsmönnum úr flokki Erdogans Tyrklandsforseta í heimsókn sinni til landsins í síðustu viku. 

Eins og fram hefur komið þáði Róbert heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Istanbúl og gekk á fund Erdogans Tyrklandsforseta. Hefur heimsókn Róberts verið harðlega gagnrýnd af mannréttindafrömuðum og fleirum.

Róbert Spanó fundaði með Erdogan Tyrklandsforseta.
Róbert Spanó fundaði með Erdogan Tyrklandsforseta.

Í umfjöllun þýska blaðsins Der Tagesspiegel kemur fram að Róbert hafi heimsótt kjördæmi Cüneyts Yüksels, þingmanns AKP, flokks Erdogans. Sá þingmaður er bróðir Saadets Yüksels, tyrknesks dómara við Mannréttindadómstólinn sem ferðaðist með Róberti. Í umræddu kjördæmi hafi Róbert látið mynda sig með manni sem settur var við stjórnartaumana af yfirvöldum þegar kjörinn borgarstjóri var settur af. Róbert hafi ekki fundað með kjörna borgarstjóranum eða öðrum fulltrúum stjórnarandstöðuflokksins HDP. Í fréttinni kemur fram að Basak Demirtas, eiginkona kúrdíska stjórnmálamannsins Selahattins Demirtas, kveðst hafa óskað eftir fundi með Róberti. Hann hafi einungis verið í klukkustundar fjarlægð frá heimili hennar og hún hafi viljað upplýsa hann um stöðu HDP-flokksins og hins fangelsaða eiginmanns. Sá hefur verið bak við lás og slá um árabil, ólöglega að mati Mannréttindadómstólsins.

„Hundruð stjórnarandstæðinga og blaðamanna eru í fangelsi í Tyrklandi en það skipti ekki máli þegar mannréttindadómarinn frá Evrópu kom í heimsókn. Spanó fundaði með stjórnarþingmönnum, forðaðist fulltrúa andstöðunnar og þáði heiðursdoktorsnafnbót frá háskóla sem sparkaði út áberandi gagnrýnendum Receps Tayyips Erdogans forseta. Borgarasamfélaginu í Tyrklandi finnst það svikið,“ segir í fréttinni.

Ekki hægt að mismuna aðildarríkjum

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, kveðst hins vegar telja að heimsókn Róberts til Tyrklands hafi verið réttlætanleg. Sagði hún í viðtali á Rás 2 að fulltrúar dómstólsins yrðu að vera óhlutdrægir gagnvart sínum aðildarríkjum og hefði Róbert ekki þegið heimboðið hefði það verið til marks um hið gagnstæða. Ekki væri hægt að mismuna aðildarríkjum. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Hlutirnir sem verið er að gagnrýna að Róbert hafi gert eru hlutir sem almennt hafa verið gerðir í svona heimsóknum. Spurningin er bara hvort það hafi verið tækifæri hérna til að endurskoða þessar hefðir. Eða ekki. Ekki öfunda ég Róbert né dómstólinn að hafa þurft að velja hvað vægi þyngra  að móðga mögulega Tyrkland eða gefa stjórnarandstæðingum til kynna að hann væri ekki óhlutdrægur gagnvart þeim,“ sagði Þórhildur og bætti við að um hefði verið að ræða „sérlega viðkvæma heimsókn“ og spyrja mætti ýmissa spurninga í tengslum við hana. Róbert hefði þó lýst því yfir þegar hann tók við heiðursnafnbótinni að það gerði hann vegna mikilvægis þess að dómstóllinn kæmi fram sem óhlutdrægur.

Vladimiro Zagrebelsky, fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn, segir í aðsendri grein í ítalska blaðinu La Stampa, að í heimsókn sinni hafi Róbert notað tjáningarfrelsið sem staða hans færir honum til að veita þeim kjark sem eigi skilið að heyra frjáls og sanngjörn orð.

Róbert Spanó kvaðst í gær ekki myndu tjá sig frekar um heimsókn sína og vísaði í svör sín í helgarblaði Fréttablaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert