Vill ekki trúa að þeim verði vísað úr landi

Fyr­ir­hugað er að senda þau Abdalla, níu ára, Mu­stafa, tveggja …
Fyr­ir­hugað er að senda þau Abdalla, níu ára, Mu­stafa, tveggja ára, Hamza, fimm ára og Rewida, tólf ára, úr landi á miðvikudaginn. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

Friðþjófur Helgi Karlsson, skólastjóri Háaleitisskóla Ásbrúar, segist ekki vilja trúa því að egypskri fjölskyldu verði vísað úr landi á miðvikudaginn eins og til stendur að gera.

„Ég vona að það komi ekki til þessarar brottvísunar. Það myndi hryggja mig mjög ef það yrði niðurstaðan, ég vil bara ekki trúa því að það verði að veruleika,” segir Friðþjófur Helgi, sem telur aðgerðir yfirvalda grimmilegar.

Tvö eldri börnin í fjölskyldunni hafa stundað nám í Háaleitisskóla í tvö ár, auk þess sem litli bróðir þeirra var að byrja í fyrsta bekk.

Friðþjófur Helgi segir börnin hafa myndað vinatengsl við skólafélaga sína og lagt rækt við íslenskunámið sem og annað nám. „Þetta eru kurteisir og prúðir krakkar sem eiga sína drauma um framtíðina og vilja gjarnan að þeir draumar rætist á Íslandi.”

Hann bætir við að dómsmálaráðherra hafi allar forsendur til að endurskoða ákvörðunina um brottvísun. „Mér finnst hún eiga að gera það miðað við þennan tíma sem þau hafa verið hérna,” segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina