Uppskriftin er föl og fyrirtækið í kaupbæti

Alda Albertsdóttir í Gamla bakaríinu á Ísafirði hér með bakka …
Alda Albertsdóttir í Gamla bakaríinu á Ísafirði hér með bakka af napóleonskökum sem bæði alþýðan vestra og þjóðhöfðingjar gera góð skil. mbl.is/Sigurður Bogi

Leyniuppskrift að napóleonskökum fylgir með í kaupum á Gamla bakaríinu á Ísafirði, sem nú er til sölu. Árni Aðalbjarnarson bakarameistari, sem í áratugi hefur mundað kökukeflið, hnoðað deig og bakað, ætlar að láta staðar numið í októberlok og bakaríinu verður lokað frá og með 1. nóvember seljist fyrirtækið ekki fyrir þann tíma.

„Ég vona innilega að einhver taki við þessum rekstri; að hér verði áfram bakarí, veitingahús eða kaffistaður. Svona starfsemi þarf að vera hér í miðbænum,“ segir Árni, sem er 67 ára að aldri og finnst nú tímabært að draga saman seglin.

Gamla bakaríið var stofnað árið 1871 af Þorsteini Þorsteinssyni. Afi Árna, Tryggvi Jóakimsson, keypti bakaríið árið 1920, en var ekki menntaður í faginu og réð því til sín hinn þýska Hanz Häsler. Sá lagði margt gott til, svo sem uppskrift að napóleonskökum. Þær eru kenndar við Napóleon Bónaparte; herforingja í frönsku byltingunni 1789 og síðar þjóðarleiðtoga Frakka. Kökurnar eru sannkallað sætabrauð; bakaðar úr smjördeigi, fylltar með sultu og vanillukremi og svo settur á þær glassúr.

„Margar uppskriftirnar hér í bakaríinu hafa verið notaðar síðan í tíð afa míns,“ segir Árni, sem hefur starfað í bakaríinu frá barnsaldri; fyrst með Aðalbirni föður sínum, sem lést 1970, en lengst með Ruth Tryggvason móður sinni, sem lést 2011. Ruth sinnti lengi afgreiðslu í bakaríinu sem þekkt er fyrir mikið vöruúrval, að því er fram kemur í umfjöllun um bakaríið í Morgunblaðinu í dag.

Árni Aðalbjörnsson í Gamla bakaríinu á Ísafirði.
Árni Aðalbjörnsson í Gamla bakaríinu á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert