Ekkert sem bannar að staðirnir verði nafngreindir

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert í persónuverndarlögum bannar að upplýst sé hvaða skemmtistaðir það eru sem tengjast nýlegum COVID-19-smitum segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Staðirnir hafa óskað eftir nafnleynd og sóttvarnayfirvöld urðu við því.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að nokkrir eigendur þeirra veitingastaða þar sem smit hafa greinst síðustu daga hefðu óskað eftir því að nöfn staðanna yrðu ekki birt opinberlega. Yfirvöld telji sig ekki hafa heimild til að nafngreina þá og því hefur það ekki verið gert.

„Frá persónuverndarsjónarmiðum þá er alveg ljóst að fyrirtæki njóta ekki persónuverndar. Þannig að það er ekkert frá okkar bæjardyrum séð sem á að varna því að upplýst sé um þá staði sem þarna um ræðir,“ sagði Helga í samtali við RÚV.

Benti hún á að sjónarmið um almannahagsmuni og heilsu vægi þyngra en viðskiptahagsmunir fyrirtækja. Það væri ekki áfellisdómur að birta nöfnin heldur væri einfaldlega verið að greina frá staðreyndum um að smit hefðu komið upp þar og það gæti gerst hvar sem er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert