Ekki lengur „fordæmalausir tímar“

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að nokkrir eigendur þeirra veitingastaða þar sem greinst hafa kórónuveirusmit undanfarna daga hafi óskað eftir því að nöfn staðanna yrðu ekki birt opinberlega. Víðir hvetur alla eigendur veitingastaða til að gefa sig fram við sóttvarnayfirvöld sé vitað til þess að smit hafi komið upp á stöðum þeirra. Það sé samfélagslega ábyrgt.

Fram kom í samtali mbl.is við Víði Reynisson, yfirlögregluþjón almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, fyrr í dag að um þriðjung þeirra 75 smita sem greindust í gær megi rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ítrekaði þetta svo á upplýsingafundi almannavarna síðdegis.

Ekki heimilt að gefa upp nöfn staðanna

Víðir var spurður að því á fundinum hvers vegna nöfn þeirra staða sem nýgreind smit eru rakin til væru ekki birt. Sagði hann þá að eigendur margra staða hefðu óskað eftir því að gæta leyndar. Hann segir að yfirvöld verði að verða við þeirri ósk.

Hann hvetur þó engu að síður eigendur þeirra staða, þar sem upp hafa komið smit, til að gefa sig fram.

Samvinna við rekstraraðila góð

„Við höfum verið í samskiptum við eigendur þessara staða og höfum hvatt þá ítrekað til þess að koma fram. Þeir hafa verið í góðri samvinnu við okkur. Þeir hafa óskað eindregið eftir því að staðirnir séu ekki nefndir og samkvæmt ýmsum skilyrðum sem við þurfum að fylgja teljum við okkur ekki heimilt að nefna þá.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Við höfum þó hvatt eigendur þessara staða til þess að koma bara fram. Það tapar enginn á því, höldum við. Það er bara samfélagslega ábyrgt að gera það,“ sagði Víðir á fundinum.

Ekki lengur „fordæmalausir tímar“

Bæði Víðir og Þórólfur minntu ítrekað á mikilvægi persónubundinna sóttvarna og minntu á handþvott og sprittnotkun. Þá hvöttu þeir fólk til þess að vera jákvætt og bjartsýnt og sagði Víðir að veiran væri óvinurinn og því ætti fólk ekki að leita að sökudólgum hvað hjá öðru.

„Við höfum oft talað í þessum faraldri um fordæmalausa tíma en við erum kannski ekki lengur þar. Við erum búin að upplifa margt af þessu áður og við vitum alveg hvað við þurfum að gera,“ sagði Víðir í lok fundarins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert