Byggt í Álfsnesi eða ekki?

Ný aðstaða Björgunar á Álfsnesi, gegnt Þerney. Mannvirki verða á …
Ný aðstaða Björgunar á Álfsnesi, gegnt Þerney. Mannvirki verða á landi og landfyllingum. Lega Sundabrautar er einnig sýnd á myndinni. Mynd/Alta

Í nóvember 2017 var auglýst breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur. Í henni fólst að framtíðarstaðsetning Björgunar ehf. verði í Álfsnesvík við Þerneyjarsund og þar verði vinnslusvæði fyrir ómengað jarðefni úr sjó, landfylling og höfn fyrir sanddæluskip félagsins. Starfsemi Björgunar var áður í Sævarhöfða en stafsemi var hætt þar í fyrra.

Þessi skipulagsbreyting mætti strax nokkurri andstöðu. Í bréfi Minjastofnunar Íslands, sem dagsett er 17. júlí 2018, beinir hún þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar, á grunni upplýsinga úr uppfærðri fornleifaskráningu Borgarsögusafns, að fundin verði önnur staðsetning fyrir starfsemi Björgunar. Byggði Minjastofnun tilmæli sín á að svæðið væri hluti af einstakri minjaheild með minjum um verslun, útveg og landbúnað.

Í framhaldinu ákvað Reykjavíkurborg að skoða hvort mögulegt væri að grípa til mótvægisaðgerða sem t.d. gætu falið í sér að skráðum minjum á svæðinu yrði hlíft að hluta eða öllu leyti, fornleifarannsóknir og/eða aðrar leiðir við varðveislu minjanna.

Það var svo í júní 2019 að Björgun og Reykjavíkurborg undirrituðu

samkomulag um að fyrirtækið fái lóð undir starfsemi sína í Álfsnesvík á Álfsnesi, skammt frá urðunarsvæði Sorpu. Skipulagsferli hófst og jafnframt var unnið að umhverfismati á svæðinu. Björgun fékk svo lóðinni úthlutað fyrr á þessu ári.

Einstakt menningarlandslag að mati Minjastofnunar Íslands

Í framhaldinu ákvað Minjastofnun að hefja undirbúning tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um að friðlýsa menningar- og búsetulandslag við Þerneyjarsund, í Þerney og á Álfanesi. Samkvæmt 18. gr. laga um menningarminjar frá 2012 megi friðlýsa fornleifar, sem hafa menningarsögulegt, visindalegt eða listrænt gildi. Fyrirhuguð uppbygging í Álfsnesvík muni hafa mjög neikvæð áhrif á einstakt menningarlandslag á Álfsnesi og við Þerneyjarsund og spilla menningarminjum á óafturkræfan hátt. Með því yrðu hagsmunir Björgunar teknir fram yfir hagsmuni almennings.

Í friðlýsingarskilmálunum segir að Þerneyjarsund sé ein fjögurra gamalla kauphafna á því svæði sem nú er nefnt höfuðborgarsvæðið, hinar eru Leiruvogur í Mosfellsbæ, Hólmurinn í Reykjavík og Hafnarfjörður. Við Þerneyjarsund sé einstaklega vel varðveitt menningar- og búsetulandslag sem spanni búsetu á svæðinu frá því á miðöldum fram á 20. öld. Við Þerneyjarsund var hafskipahöfn á 14. og 15. öld og á þeim tíma hafi verið þar ein aðalhöfn landsins. Í heimildum frá 1429 komi fram að Skálholtsskóli hafði aðstöðu við Þerneyjarsund vegna utanlandsverslunar. Skipalega var við sundið og búðarstæði á landi austan við það. Norðar var býlið Glóra, þar sem búið var til 1898 og aftur á árunum 1928-1936. Enn megi sjá ummerki um búskap á fyrri hluta 20. aldar, fyrir tíma vélaaldar. Rústir Glóru séu einu minjar um slík býli sem eftir séu í landi Reykjavíkur.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, sendi bréf til Reykjavíkurborgar í júlí sl. og gaf borginni kost á að gera athugasemdir við friðlýsingaráformin. Svar Ebbu Schram borgarlögmanns var kynnt á síðasta fundi borgarráðs. Þar gerir Reykjavíkurborg athugasemdir við málsmeðferð friðlýsingartillögu Minjastofnunar Íslands og telur að ekki hafi verið gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga við undirbúning tillögunnar. Það er mat Reykjavíkurborgar að ekki sé nauðsynlegt að friðlýsa svæðið í heild sinni, enda geri uppfærð fornleifaskráning svæðisins ekki tilefni til slíkrar friðlýsingar. Telur Reykjavíkurborg að meðalhófs og rannsóknarreglu hafi ekki verið gætt við gerð tillögunnar.

Má tryggja vernd minja með öðrum hætti en friðlýsingu?

„Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að Minjastofnun Íslands hefur eigi kannað hvort tryggja megi vernd minja á svæðinu með öðrum hætti en friðlýsingu. Mikilvægt er að slíkt mat fari fram í ljósi þess að ekki verður séð að hafnar- og athafnasvæði Björgunar ehf. muni koma til með að raska minjum sem teljast hafa menningarsögulegt eða sérstakt verndargildi á svæðinu. Jafnframt þarf slíkt mat að fara fram með hliðsjón af því að um er að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og stjórnarskrárvarinn eignarétt Reyjavíkurborgar og Björgunar ehf. sem handhafa lóðarréttinda á svæðinu og veghelgunarsvæði Sundabrautar,“ segir í svari Reykjavíkurborgar.

Greinin má lesa í heild í Morgunblaðinu sem kom út 17. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert