Gætu tekið um 5.000 sýni á morgun

Frá sýnatöku vegna COVID-19.
Frá sýnatöku vegna COVID-19. Ljósmynd/Landspítali

Ef vel bókast í nýja tíma á Heilsuveru gæti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekið um 5.000 sýni á morgun. Útlit er fyrir langan vinnudag hjá „góðum hópi fólks“ sem mun taka sýni frá því klukkan átta í fyrramálið og fram á kvöld ef þess gerist þörf þó vonandi náist að klára alla sýnatökuna á 8-10 tímum. Þetta segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Mest hafa um 4.000 sýni verið tekin á landsvísu á einum degi í faraldrinum, en það var 17. september síðastliðinn þegar 75 smit greindust í kjölfarið. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekur gjarnan 2-3 þúsund sýni daglega en ákvörðun um að bæta við tímum á Heilsuveru var tekin í dag og mun heilsugæslan geta tekið 2.000 fleiri sýni en vant er, eða allt að 5.000 sýni alls. 

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Lögreglan

Slæmt ef fólk með einkenni kemst ekki að

Ástæðan fyrir því að gefið er í sýnatökuna er mikill fjöldi smita sem hefur greinst í samfélaginu undanfarið og hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fengið ábendingar um að fólk hafi ekki komist að í skimun, þrátt fyrir að það sé með einkenni. 

„Það hefur aðeins borið á því að fólk hafi átt erfitt með að fá tíma þó það sé með einhver einkenni. Það er ekki gott ef fólk er með einkenni og kemst ekki að,“ segir Óskar. 

„Við erum fyrst og fremst að stíla inn á fólk með einkenni. Við verðum með góðan hóp af fólki í sýnatökunni á morgun og það er hægt að bóka í þetta nú þegar.“

Vilja koma sem flestum að

Ekki er þörf á að setja upp fleiri sýnatökustöðvar vegna þessa, að sögn Óskars, en skipulagið er þannig að byrjað verður snemma og haldið áfram eins og þörf krefur. 

„Það fer eftir því hvernig bókast. Við verðum fram eftir ef þess þarf. Þetta er svo vel skipulagt að ég á alveg von á því að þetta gangi upp á átta eða tíu tímum.“

Líklega verður ekki boðið upp á svo mikið af tímum í sýnatöku aftur á næstunni en hugmyndin er að koma sem allra flestum að á morgun. 

Fólk með einkenni getur bókað tíma í sýnatöku á sínum aðgangi á heilsuvera.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert