Sagður hafa kveikt í á fjórum stöðum í húsinu

Frá vettvangi brunans í júní.
Frá vettvangi brunans í júní. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Karlmaðurinn á sjötugsaldri, sem ákærður er fyrir manndráp og tilraun til manndráps með íkveikju í húsnæðinu að Bræðraborgarstíg 1 í júní, er í ákærunni sagður hafa kveikt eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæð, á tveimur stöðum á gólfi í sameiginlegu rými á sömu hæð og undir stiga sem sem lá upp á þriðju hæð hússins.

Í ákærunni kemur jafnframt fram að þegar hann hafi kveikt eldinn hafi 13 manns verið í húsinu og var húsið orðið nær alelda þegar slökkvistarf hófst.

Þrjú létust í brunanum, 24 ára kona, 21 árs karlmaður og 26 ára kona. Kemur fram í ákærunni að þau tvö fyrrnefndu hafi látist af völdum koloxíðeitrunar við innöndun á reyk, en hin konan látist þegar hún féll niður af þriðju hæð þegar hún reyndi að flýja eldinn.

Hin 10 sem voru í húsinu eru sögð hafa verið í lífsháska vegna eldsins, en tekist að koma sér þaðan út eða verið bjargað af lögreglu og slökkviliði. Þannig hlaut ein kona væga reykeitrun, karlmaður féll niður af þriðju hæð við að koma sér út og hlaut mörg höfuðkúpubrot, blóðtappa í slagæðum lungna, staðbundna heilaáverka og aðra áverka ásamt reykeitrun, annar karlmaður fékk reykeitrun og sár á hendi og fótlegg og þriðji maðurinn hlaut reykeitrun og annars og þriðja stigs brunasár á samtals 17% líkamans.

Í einkaréttarkröfum í málinu er farið fram á 79,6 milljónir í skaða- og miskabætur auk vaxta, þar af 40 milljónir til fjölskyldna þeirra sem létust.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hinn ákærði neitaði sök í málinu, en einnig kom fram mat um ósakhæfi hans. Óskaði ákæruvaldið eftir því að aukaspurningum við matið þar sem staða mannsins yrði metin í dag og hvort gera þurfi ör­ygg­is­ráðstaf­an­ir verði kom­ist að þeirri niður­stöðu að hann sé ósakhæf­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert