Brýnt að frumvarp um brunavarnir verði að lögum

Frá Stangarhyl þar sem eldur kom upp um síðustu helgi.
Frá Stangarhyl þar sem eldur kom upp um síðustu helgi. Ljósmynd/Aðsend

HMS telur brýnt að frumvarp innviðaráðherra um breytingar á lögum til að efla brunavarnir og öryggi fólks sem hefur fasta búsetu í atvinnuhúsnæði verði að lögum sem fyrst.

Í tilkynningu frá stofnuninni kemur fram að þannig sé hægt að tryggja öryggi íbúa landsins með tilliti til brunavarna.

Á næstu dögum stendur til að innviðaráðherra leggi fram frumvarpið.

Fjórir alvarlegir brunar á árinu í húsnæði sem er ekki samræmi við skráningu

Fram kemur að fjórir alvarlegir brunar hafi orðið á árinu í húsnæði þar sem notkun er ekki í samræmi við skráningu húsnæðis og aðalskipulag sveitarfélags. Brunarnir hafi orðið í atvinnuhúsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Allir hafi þeir valdið töluverði tjóni, bæði mann- og eignatjóni.

Nefndir eru brunar í Vatnagörðum í Reykjavík í febrúar, við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði í ágúst, Funahöfða í Reykjavík og Stangarhyl í Reykjavík.

Í tilkynningunni segir að brunavarnarsvið HMS hafi rannsóknarskyldu að gegna þegar kemur að brunum sem fela í sér manntjón eða mikið eignatjón.

„HMS hefur brunana sem hér um ræðir til skoðunar og er unnið að rannsókn þessara mála innan brunavarnasviðs stofnunarinnar. Fyrir liggur að nauðsynlegt er að efla brunavarnir í húsnæði sem nýtt er til búsetu óháð notkunarflokki og því mikilvægt að skoða þau atvik sem koma upp sérstaklega í slíku húsnæði. Niðurstöður þessara rannsókna liggja ekki fyrir að svo stöddu en þær munu nýtast til áframhaldandi vinnu í við að efla brunavarnir með öryggi íbúa að leiðarljósi,” segir í tilkynningunni.

Einnig kemur fram að mikil vinna hafi átt sér stað á sviði brunavarna síðan bruninn við Bræðraborgarstíg varð árið 2020 þar sem þrír létust.

Frumvarp ráðherra innihaldi mikilvæg ákvæði á sviði brunavarna er varða heimildir slökkviliðs til eldvarnareftirlits, svo sem skoðunar og beitingu stjórnvaldssekta þar sem þess reynist þörf.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert