„Ekki jákvætt að fólk sé of lengi í pólitík“

Smári McCarthy telur ekki gæfulegt að fólk sitji of lengi …
Smári McCarthy telur ekki gæfulegt að fólk sitji of lengi á þingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef alltaf litið svo á að það er ekki jákvætt að fólk sé of lengi í pólitík,“ segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og er það ein af ástæðum þess að hann hyggst ekki gefa kost á sér í komandi Alþingiskosningum haustið 2021.

„Ef maður trúir á lýðræði þá felur það í sér að lýðræðið gengur best þegar hver og einn einstaklingur í samfélaginu tekur eins og eina „vakt“. Ég er búinn að gera mitt besta síðustu ár og nú er kominn tími til að einhver annar taki við keflinu,“ segir hann en tekur þó fram að hann sé ekki að gagnrýna fólk sem býður sig aftur fram.

Smári hefur unnið lengi við tæknistörf og telur ekki ólíklegt að hann muni koma til með að starfa á því sviði, auk þess að leggja flokksstarfinu lið. Sömu sögu er að segja um Helga Hrafn flokksbróður hans, sem hyggst einnig snúa sér að öðru að þessu kjörtímabili loknu.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Langar að gera allskonar hluti

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata gefur ekki kost á sér í komandi kosningum og hyggst sinna tæknimálum innan flokksins í auknum mæli, auk stefnumótunar.

„Þegar ég lít á næstu fjögur árin eftir þetta ár sem er eftir, þá langar mig að gera allskonar aðra hluti,“ segir hann og vísar til tæknistarfa, þar sem hefur starfað sem tæknimaður í gegnum tíðina.

„Eðli þess að vera kjörinn fulltrúi er að vera kjörinn í tiltekinn tíma og þú tekur ákvörðun um að halda áfam reglulega. Spurningin snýst um hvort maður ætli að bjóða sig fram, en ekki hvort maður ætli ekki að bjóða sig fram,“ segir Helgi.

mbl.is