Sjósund við ysta haf

Það er notalegt að fara í sjóinn við ljósa sandfjöruna …
Það er notalegt að fara í sjóinn við ljósa sandfjöruna úti á Langanesi, ekki síst þegar haustsólin vermir. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Margir telja sjósund hafa jákvæð áhrif á heilsu fólks og hópur kvenna á Þórshöfn er því hjartanlega sammála. Þær stofnuðu nýlega hópinn „Áhugakellur um sjósund“ en fyrsta sund hópsins var í byrjun september.

Ekki er ylströnd né heitir pottar við strendur Langanessins en þar finnast samt staðir sem heilla til sín sundfólk, að því er fram kemur í umfjöllun um sjósund við ysta haf í Morgunblaðinu í dag.

Oft er farið í sjóinn við Brekknasand innst í Þistilfirði, austan við ósa Hafralónsár. Þangað er þægilega stutt að fara frá Þórshöfn, svört sandfjaran er mjúk og hægt að fara nokkuð langt út á grunnsævi. Annar vinsæll baðstaður er úti á Langanesi, nokkru lengra frá Þórshöfn og ekki í alfaraleið en þar upplifa sundkonur sig aleinar í heiminum úti við ysta haf.

„Þetta er ótrúlega magnað, endurnærir bæði líkama og sál og dásamleg vellíðan fylgir svo í kjölfar sjóbaðsins,“ sögðu þessar hressu konur í norðrinu sem drifu sig í ullarsokka á sandinum eftir sjóvolkið. Brúsi með brennheitu jurtatei er líka með í sokkapokanum og yljar vel eftir volkið. Það er farið hægt af stað í sjóböðin og engin ofgerir sér.

Námskeið varðandi sjósund verður á vegum Þekkingarnets Þingeyinga á Þórshöfn upp úr miðjum október og búast má við fjölmenni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert