Björn verður sveitarstjóri

Egilsstaðir eru stærsti þéttbýlisstaðurinn.
Egilsstaðir eru stærsti þéttbýlisstaðurinn. mbl.is/Sigurður Bogi

Málefnasamningur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um stjórn nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi var undirritaður í gær. Ákveðið hefur verið að ganga til viðræðna við Björn Ingimarsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, um að gegna stöðu sveitarstjóra nýja sveitarfélagsins til loka kjörtímabilsins.

Samið er um að sjálfstæðismenn tilnefni fólk í tvö helstu embættin, forseta sveitarstjórnar og formanns byggðarráðs, en ekki hefur verið gengið formlega frá því hvaða fólk fer í þessi embætti. Flokkarnir tilnefna báðir tvo fulltrúa í helstu ráð og nefndir. Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna, verður formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs en sjálfstæðismenn tilnefna formann fjölskylduráðs.

Björn Ingimarsson
Björn Ingimarsson mbl.is

Í málefnasamningi er lögð áhersla á rafræna stjórnsýslu og fór kynning með blaðamönnum fram á netinu. Sömuleiðis var málefnasamningur flokkanna undirritaður rafrænt.

Nýtt sveitarfélag verður til með sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps. Sjálfstæðismenn fengu 4 menn kjörna í nýafstöðnum kosningum og framsóknarmenn 2.

mbl.is