Minna framboð og verri nýting

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í ágúst síðastliðnum dróst saman um 65% samanborið við ágúst 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 66%, um 52% á gistiheimilum og um 60% á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.).

Samkvæmt áætlun sem byggir á landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands var enn fremur 87% fækkun á gistinóttum erlendra ferðamanna á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður en Hagstofan hefur ekki upplýsingar um fjölda íslenskra gistinátta á stöðum sem miðla gistingu á slíkan máta.

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 519.000 í ágúst en þær voru um 1.494.000 í sama mánuði árið áður. Um 53% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 273.000, en um 47% á erlenda gesti, um 246.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 274.000, þar af 180.000 á hótelum. Gistinætur erlendra ferðamanna á gististöðum sem miðlað var gegnum Airbnb voru um 32.000 og gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 213.000.

80% fækkun gistinótta á Suðurnesjum 

Framboð hótelherbergja minnkaði um 21% frá ágúst 2019. Hvort sem litið er á gistinætur á hótelum, framboð eða nýtingu er mestur samdráttur á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi. Á Suðurnesjum fækkaði gistinóttum á hótelum úr 50.200 í 10.300, eða um 80%.

Herbergjanýting á hótelum í ágúst var 36,4% og dróst saman um 46 prósentustig frá fyrra ári. Nýtingin var lægst á Suðurnesjum (23,7%) en hæst á Norðurlandi (58,6%) og Austurlandi (58,5%).

Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum í ágúst drógust saman um 82% á milli ára en íslenskar gistinætur jukust um 145% (þ.e. rúmlega tvöfölduðust). Gistinætur Íslendinga voru 93.700, eða 52% af hótelgistinóttum, á meðan erlendar gistinætur voru 86.300 eða 48%.
Á 12 mánaða tímabili, frá september 2019 til ágúst 2020, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 2.835.000 sem er 37% fækkun miðað við sama tímabil árið áður.
Samkvæmt áætlun, sem byggir á svörum úr landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands, voru gistinætur erlendra ferðamanna í bílum utan tjaldsvæða um 6.000 og gistinætur þeirra hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu, um 14.000.

Þar sem fækkun brottfara frá Keflavíkurflugvelli hefur skapað vandkvæði við öflun gagna fyrir landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að hún muni liggja niðri frá september og þar til aðstæður breytast. Meðan á því stendur verða ekki birtar áætlaðar tölur um gistinætur utan hefðbundinnar gistináttaskráningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert