Smærri brugghús fái að selja bjór í smásölu

„Þetta er mikið fagnaðarefni enda heyja smærri brugghús nú baráttu upp á líf og dauða. Það myndi hjálpa okkur gríðarlega að fá beinan aðgang að viðskiptavinum okkar með þessum hætti,“ segir Sigurður Pétur Snorrason, formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur nú kynnt áform sín um breytingar á áfengislögum. Rétt eins og á síðasta þingi leggur ráðherra til að rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda verði heimilaður. Nú er einnig lagt til að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað.

Í umfjöllun um frumvarpið á samráðsgátt stjórnvalda, en þar er hægt að leggja fram athugasemdir til 12. október, kemur fram að í löndunum í kringum okkur sé smærri brugghúsum almennt heimilt að selja bjór í smásölu en mismunandi takmarkanir séu þar á. Er sérstaklega horft til lagasetningar sem tók gildi í Finnlandi árið 2018.

Hefur hallað á þá smærri

„Með frumvarpinu er leitast við að styðja við áframhaldandi vöxt og þróun á rekstrarumhverfi smærri brugghúsa á Íslandi,“ segir í kynningunni og rakið að síðustu ár hafi smærri brugghús víða byggt upp ferðamennsku í tengslum við rekstur sinn. Vinsælt sé að fara í skoðunarferðir í brugghúsin og skjóti það skökku við að gestir geti ekki keypt vöruna að þeim loknum og tekið með sér. „Enn fremur hefur borið á því að erfitt sé fyrir smærri brugghús að fá vörur sínar seldar í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, jafnvel nærri framleiðslustað. Þá geti það verið sérstaklega erfitt í tilviki áfengistegunda sem eru framleiddar einungis tímabundið eða í litlu magni,“ segir í kynningunni. Hafi þetta skapað samkeppnisumhverfi þar sem halli á smærri brugghús.

Framleiðendur, sem framleiða minna en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári, munu geta fengið framleiðslusöluleyfi samkvæmt frumvarpinu. Framleiðslusöluleyfi mun gera handhafa leyfisins kleift að selja áfengt öl, gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni, sem inniheldur ekki meira en 12% af hreinum vínanda að rúmmáli, á framleiðslustað.

Forsvarsmenn RVK Brewing vonast eftir því að mega selja bjór …
Forsvarsmenn RVK Brewing vonast eftir því að mega selja bjór í smásölu úr brugghúsi sínu. Sigurður Snorrason er lengst til hægri á myndinni. mbl.is/Hari

Hjálpar í erfiðri baráttu

„Þetta hefur verið eitt af okkar helstu baráttumálum, ásamt því að fá áfengisgjöld lækkuð fyrir minni framleiðendur,“ segir Sigurður Pétur. „Í samtökunum eru 22 lítil handverksbrugghús um allt land. Þau styðja við nærsamfélagið, veita atvinnu, laða að gesti og auka fjölbreytni. Það væri synd ef þessi félög sem sprottið hafa upp af eldmóð og áhuga eigenda nái ekki að lifa af þessa erfiðu Covid-tíma. Þetta frumvarp myndi hjálpa brugghúsunum mikið.“

Myndi útiloka frumkvöðlana

„Það er auðvitað fagnaðarefni ef það verður hægt að versla beint af framleiðendunum. Við fögnum öllum litlum skrefum sem greiða götu minni brugghúsa,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda á Árskógssandi.

Kaldi fagnar í dag, miðvikudag, 14 ára afmæli sínu en brugghúsið ruddi veginn fyrir önnur handverksbrugghús hér á landi. Agnes er ósátt við að framleiðsluleyfi eigi að verða bundin við þá framleiðendur sem framleiða minna en 500 þúsund lítra ár hvert. Kaldi er rétt yfir mörkunum í dag.

Agnes Anna Sigurðardóttir, einn eigenda Kalda á Árskógssandi.
Agnes Anna Sigurðardóttir, einn eigenda Kalda á Árskógssandi.

„Við erum fyrsta litla brugghúsið en erum látin borga sömu gjöld og risarnir. Við verðum því að reyna að stækka til að ná fram einhverri hagræðingu. Eigum við þá að segja upp fólki og minnka við okkur til að falla í þennan flokk? Eða eigum við að stækka og skapa fleiri störf? Ég myndi vilja bjóða ráðherranum í heimsókn hingað áður en hún fer að útiloka frumkvöðlana í þessum bransa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert