Leita lausna á landamærum

„Það er alltaf hætta á að þessir einstaklingar svindli eða fari út í samfélagið,“ segir Jón Ívar Einarsson, prófessor við Harvard-háskóla, um núverandi fyrirkomulag í landamæraskimun. Hann stingur upp á að fólk fari í skimun í sínu heimalandi áður en það ferðast á milli landa og í seinni skimun hér. Eftir því sem sem geta til skimunar eykst um allan heim gæti fyrirkomulag af þessum toga komið til álita enda eru miklir hagsmunir í húfi og erfitt að gera áætlanir fram í tímann þar sem óvissan er jafnmikil og raun ber vitni. 

Í dag eru þeir sem koma til landsins settir í fimm daga sóttkví og tvöfalda skimun en fyrirkomulagið hefur bæði verið gagnrýnt fyrir að vera of harkalegt en einnig fyrir að veita ekki nægjanlegt aðhald. 

Í myndskeiðinu er rætt við Jón Ívar í gegnum síma en hann er staddur í Boston á austurströnd Bandaríkjanna. Hann segir að t.a.m. sé þessi háttur hafður á þegar ferðast sé til Líbanons.

Ljóst er að víða er verið að leita leiða til að draga úr hömlum á ferðum á milli landa en í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að Þjóðverjar beiti sér nú innan Evrópusambandsins við að liðka fyrir fólksflutningum á milli landa. Þar er þó aðallega talað um að samræma reglur á milli landa og til þess yrðu lönd flokkuð í litaflokka eftir því hvernig nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er í hverju landi. Þar sem flæði fólks yrði frjálst á milli landa þar sem nýgengi smita er lágt eða færri en 25 á 100.000 íbúa yfir fjórtán daga tímabil.

Grein Jóns Ívars hefur vakið talsverða athygli, en þar bendir hann einnig á að aukinn kraft í kórónuveirufaraldrinum sem við erum að upplifa hér á landi megi aðallega rekja til tilslakana hér á landi.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert