Andlát: Dr. Pétur M. Jónasson

Pétur Mikkel Jónasson
Pétur Mikkel Jónasson

Dr. Pétur Mikkel Jónasson, vatnavistfræðingur og prófessor emerítus við Kaupmannahafnarháskóla, er látinn, 100 ára gamall.

Pétur fæddist í Reykjavík 18. júní 1920. Foreldrar hans voru Jónas Halldór Guðmundsson skipasmiður og Margrét Guðmundsdóttir Ottesen húsfreyja.

Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1939 og las líffræði við Hafnarháskóla. Að loknu almennu þriggja ára námi lagði hann stund á vatnalíffræði og lauk magistersprófi í dýrafræði 1952. Hann rannsakaði vistfræði stöðuvatna og varði doktorsritgerð um Esrom-vatn á Sjálandi við Hafnarháskóla 1972.

Pétur varð kennari við Hafnarháskóla 1956, skipaður forstöðumaður Vatnalíffræðistofnunar skólans 1977 og prófessor í vatnalíffræði 1979. Þeirri stöðu gegndi hann til ársins 1990 en starfaði sem prófessor emerítus til ársins 2017.

Pétur hóf að rannsaka vistkerfi Mývatns 1971 og sneri sér svo að rannsóknum á vistkerfi Þingvallavatns. Rannsóknirnar mörkuðu tímamót og lagði Pétur mikið af mörkum til náttúruverndar.

Náttúrufræðingurinn sem kom út á liðnu sumri var gefinn út til heiðurs Pétri í tilefni af 100 ára afmæli hans. Þingvallavatn og rannsóknir á því voru þema heftisins. Pétur ritaði þar grein, Þingvallavatn og Mývatn gróðurvinjar á flekaskilum. Hann skrifaði meira en 100 vísindagreinar auk bókarkafla og bóka um vatnavistfræði og náttúruvernd.

Pétur var félagi í ýmsum vísindafélögum og m.a. forseti Alþjóðasamtaka vatnalíffræðinga um skeið og lengi varaforseti Norræna vistfræðiráðsins. Hann hlaut margar viðurkenningar, m.a. Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2012, riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, riddarakross af Dannebrog og æðsta heiðursmerki vatnalíffræðinga. Pétur var heiðursdoktor við Hafnarháskóla og Háskóla Íslands og heiðursfélagi Hins íslenska náttúrufræðifélags.

Pétur kvæntist Dóru Kristínu Gunnarsdóttur (f. 1926, d. 2018) árið 1964. Þau eignuðust tvær dætur, Margréti hagfræðing (f. 1964) og Kristínu lögfræðing (f. 1967). Þær eru báðar búsettar í Danmörku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert