Andlát: Hjalti Geir Kristjánsson

Hjalti Geir Kristjánsson
Hjalti Geir Kristjánsson

Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaarkitekt í Reykjavík, er látinn, 94 ára að aldri. Hann fæddist í Reykjavík hinn 21. ágúst 1926, sonur Ragnhildar Hjaltadóttur og Kristjáns Siggeirssonar.

Hjalti lauk verslunarprófi frá VÍ 1944 og sveinsprófi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum 1948. Hélt þá til Sviss og lauk námi í húsgagnateiknun frá Kunstgewerbeschule der Stadt Zürich 1950, fór í framhaldsnám í húsgagnahönnun í Svíþjóð og verslunargreinum við Columbia-háskóla í New York.

Hjalti var framkvæmdastjóri Kristjáns Siggeirssonar hf. frá 1952, ásamt því að hanna þau húsgögn sem fyrirtækið framleiddi, og var stjórnarformaður GKS 1990.

Hann var stofnandi FHI, Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, árið 1953 og formaður til 1962. Árið 2019 var Hjalti gerður að heiðursfélaga FHI. Hann sat í stjórn Verslunarráðs Íslands 1969-1982, þar af formaður frá 1978. Hjalti var stjórnarformaður Almennra trygginga 1974-1989 og varaformaður stjórnar Sjóvár-Almennra frá 1989. Hann sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda 1975-1979, í stjórn Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1975-1979. Þá sat Hjalti í stjórn Slippfélagsins og Hamars hf. 1976-1986, stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 1978-2003, stjórn Eimskipafélagsins 1981-2000, stjórn Stálsmiðjunnar 1986-1990. Hjalti var ræðismaður Sviss á Íslandi 1987-1997, var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1986 og finnsku Ljónsorðunni 1982.

Hjalti Geir var brautryðjandi á sviði íslensks iðnaðar og hönnunar. Hann studdi inngönguna í EFTA 1970 en þá gátu íslenskir hönnuðir beint sjónum sínum utan, sem hleypti lífi í starf íslenskra húsgagnaarkitekta og íslensk hönnun varð að sjálfstæðri atvinnugrein ekki síst fyrir framgöngu hans.

Eiginkona Hjalta Geirs er Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur. Þau eignuðust fjögur börn: Ragnhildi, Kristján, Erlend og Jóhönnu Vigdísi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »