Flensusprautan líklega eftirsótt

Fólk með undirliggjandi sjúkdóma, eldra fólk, þungaðar konur og heilbrigðisstarfsmenn …
Fólk með undirliggjandi sjúkdóma, eldra fólk, þungaðar konur og heilbrigðisstarfsmenn fá forgang. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég geri ráð fyrir að það verði mikil eftirspurn eftir þessu bóluefni núna. Við reyndum hvað við gátum til að tryggja okkur meira en fengum ekki meira en þetta,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, um bólusetningu gegn árlegri inflúensu sem nú er hafin.

Íslendingar fá að þessu sinni 75.000 skammta af bóluefni gegn árlegri inflúensu. Það er meira en áður hefur fengist, að sögn Þórólfs. Hann sagði að gerður hafi verið samningur um 70.000 skammta af bóluefni árlega við franska bóluefnisframleiðandann Sanofi Pasteur fyrir nokkrum árum. Þá var ekki unnt að fá fleiri skammta. „Við höfum aldrei komið út svo mörgum skömmtum í fólk,“ sagði Þórólfur. Á undanförnum árum hefur spurn eftir bólusetningu gegn árlegri inflúensu farið vaxandi. Þrátt fyrir það hefur yfirleitt þurft að henda afgangsbóluefni á hverju ári. Nú gat tiltekið fyrirtæki herjað út 5.000 skammta til viðbótar.

„Það er alltaf skortur á þessu bóluefni. Við fáum ekki meira en þetta,“ sagði Þórólfur. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ákveður samsetningu bóluefnisins á hverju ári. Síðan er það framleitt í takmörkuðu magni.

Áhersla á ákveðna hópa

Þórólfur sagði að sem fyrr yrði lögð áhersla á að bólusetja þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma og skert ónæmiskerfi, fólk 60 ára og eldra, þungaðar konur og heilbrigðisstarfsfólk sem starfar í framlínunni. Þá er nokkuð um það að fyrirtæki bjóði starfsfólki sínu upp á bólusetningu og þannig verður það áfram.

Ákveðnir aðilar hafa annast bólusetningar gegn árlegri inflúensu undanfarin ár. Bóluefninu er dreift til þeirra samkvæmt fyrirfram ákveðnum dreifingarlista. Aukaskammtarnir 5.000 eru þar til viðbótar og fara á almennan markað.

„Það má ekki gleyma því að það er til lyf gegn inflúensu á markaðnum, Tamiflu, sem er hægt að nota þegar inflúensan kemur,“ sagði Þórólfur. Tamiflu er afhent gegn lyfjaávísun.

Árlega inflúensan er eiginlega ekkert farin að stinga sér niður. Hér á landi byrjar hún yfirleitt ekki fyrr en eftir áramót. „Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað inflúensan gerir,“ sagði Þórólfur. „Það eru miklar takmarkanir og fólk er að passa sig. Almennt hefur verið mun minna af öndunarfærasýkingum eftir að COVID-19 byrjaði. Allar þessar aðgerðir, hreinlætisaðgerðir og annað, koma í veg fyrir sýkingar. Það verður fróðlegt að sjá hvort inflúensan verður minni við þessar aðstæður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »