Ragnar Þór býður sig fram til varaforseta ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, býður sig fram í embætti varaforseta ASÍ á þingi sambandsins í næstu viku. Hann staðfesti þetta í samtali í  Morgunblaðinu í dag.

Miðstjórn ASÍ hefur lagt fram tillögu sem taka á til afgreiðslu á þinginu um að varaforsetum ASÍ verði fjölgað úr tveimur í þrjá. Auk forseta ASÍ verði framvegis fyrsti, annar og þriðji varaforseti í yfirstjórn sambandins. Jafnframt er lagt til að meðstjórnendum í miðstjórn ASÍ fækki úr tólf í ellefu.

„Ég gef kost á mér í varaforseta. Ég vona að þetta sé hluti af þeirri vegferð að þétta raðirnar,“ segir Ragnar Þór. Hann segir að aldrei hafi verið jafn mikilvægt og nú fyrir verkalýðshreyfinguna að menn snúi bökum saman og fari að vinna í eina átt. Viðfangsefnin séu gríðarlega stór um þessar mundir fyrir hag einstaklinga og heimila og samfélagið þurfi að vera samstiga vegna kórónuveirukreppunnar.

Varaforsetum ASÍ var fjölgað úr einum í tvo á þingi sambandsins árið 2014. Í dag er Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, 1. varaforseti ASÍ og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, 2. varaforseti en hún tók við þegar Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði af sér sem varaforseti sl. vor.

Framboðsfrestur er ekki liðinn en flestir virðast skv. heimildum blaðsins vera þeirrar skoðunar að Sólveig og Kristján muni gefa kost á sér áfram sem varaforsetar auk Ragnars Þórs. Markmiðið með fjölgun varaforseta er að stærstu sambönd og fylkingar eigi fulltrúa í æðstu forystu sambandsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »