Þurfum 6 smit á dag

Ísland er í stórum hópi rauðmerktra ríkja á nýju korti …
Ísland er í stórum hópi rauðmerktra ríkja á nýju korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Graf/Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins

Ísland er rautt samkvæmt nýrri flokkun sem ríki Evrópusambandsins hafa komið sér saman um til að meta stöðu kórónuveirufaraldursins á milli landa.

Svæði eru ýmist metin rauð, gul eða græn eftir stöðu veirunnar, og hafa ríkisstjórnir sammælst um að farþegar frá grænum svæðum skuli ekki sæta ferðatakmörkunum.

Flokkunin byggist á nýgengi veirunnar (fjölda smita síðustu 14 daga á hverja 100.00 íbúa) en einnig hlutfalli virkra sýna af heildarfjölda. Seinna skilyrðinu er ætlað að taka á misgóðri skimun milli landa. Sé hlutfall jákvæðra sýna yfir 4% er metið sem svo að skimun sé ekki nógu öflug og því gefi fjöldi greindra smita ekki nógu gott mat á útbreiðslu veirunnar.

Flestum löndum er skipt upp í svæði og litið til stöðunnar á hverju svæði fyrir sig, en Ísland er ein heild.

Græn svæði: Svæði þar sem nýgengi veirunnar er undir 25 og hlutfall jákvæðra sýna er innan við 4%

Rauð svæði: Svæði þar sem nýgengi er hærra en 150 ef hlutfall jákvæðra sýna er undir 4%, og svæði þar sem nýgengi er hærra en 50 ef hlutfall jákvæðra sýna er yfir 4%.

Gul svæði: Svæði á milli ofangreindra marka

Mikið rautt

Á Íslandi er nýgengi veirunnar nú 315,4 samkvæmt tölum frá Sóttvarnastofnun Evrópu, en inni í því eru tölur úr landamæraskimun (sem breyta þó litlu, eins og staðan er nú). Því er langt á græna listann fyrir Ísland. Eigi nýgengi veirunnar að komast undir 25 á Íslandi, þarf tveggja vikna tímabil þar sem meðalfjöldi smita á dag er undir u.þ.b. 6,4. Til samanburðar greindust 52 smit innanlands í dag.

Nýgengi veirunnar er sem fyrr langhæst á Íslandi af Norðurlöndum. Í Danmörku er hlutfallið 97,1, í Noregi 37,3, í Finnlandi 52,4 og í Svíþjóð 85,3. Ísland kemur þó betur út ef litið er til álfunnar í heild enda staðan víða verri. Hæst er nýgengið í Belgíu (700,8), Hollandi (509,5) og Frakklandi (388,8).

Flest lönd álfunnar eru raunar rauð á þessum nýútgefna lista, sem uppfærður er á föstudögum. Meðal undantekninga má þó nefna öll hin Norðurlöndin, sem eru ýmist græn eða gul eftir svæðum, Þýskaland, Ítalíu og Grikkland.

mbl.is

Bloggað um fréttina