Fleiri þurfa í einangrun á bráðamóttöku

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færra fólk kemur núna á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi vegna minna alvarlegra mála en álag hefur aftur á móti aukist vegna einstaklinga sem eru með öndunarfæraeinkenni og grun um Covid-19.

Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á spítalanum, spurður út í stöðu mála á deildinni vegna fleiri innlagna Covid-sjúklinga á spítalann undanfarið. 

Sjúklingar sem hafa ekki þegar greinst með kórónuveiruna og eru undir eftirliti Covid-göngudeildarinnar koma á bráðamóttökuna. Á meðan á greiningu stendur eru þeir í einangrun þar. „Álagið hjá okkur felst í því að við erum með aukinn fjölda svoleiðis einstaklinga sem þurfa á einangrun að halda,“ greinir hann frá.

Hann hvetur fólk til að vera í sambandi við sína heilsugæslustöð ef þeir eru með einkenni en þeir sem hafa farið í mat hjá heilsugæslu eða haft samband við 1700 og þurfa á frekari rannsóknum að halda eru velkomnir á bráðamóttökuna.

Herbergi á bráðamóttökunni.
Herbergi á bráðamóttökunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færri rúm og aukin bið 

Aðspurður segir hann bráðamóttökuna ráða við álagið, eins og staðan er núna. Aukin bið er aftur á móti eftir því að leggjast inn á spítalann vegna þess að fjöldi rúma hefur verið tekinn undir þjónustu fyrir sjúklinga með kórónuveiruna. „Það þýðir að það eru færri rúm til skiptanna fyrir aðra. Þó að dregið hafi úr valkvæðri skurðþjónustu finnum við að það er aftur orðin aukin bið hjá okkur,“ segir Jón Magnús.

Hann hvetur fólk til að fylgja tilmælum Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns um að leggjast ekki í ferðalög í tengslum við vetrarfríin í skólunum. Þannig geti fólk stuðlað að góðum smitvörnum.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikil uppstokkun fyrirhuguð

Spurður hvort göngudeild og endurkomudeild bæklunarlækna hafi flutt úr húsnæði bráðamóttökunar eins og til stendur segir hann að það hafi ekki enn gerst. Fyrirhuguð er mikil uppstokkun í þjónustu dag- og göngudeildar Landspítalans og munu þó nokkrar þeirra flytja í húsnæði spítalans við Eiríksgötu þar sem skrifstofur voru áður. Endurbótum á því húsnæði lýkur um áramótin.

Í kjölfarið þarf að endurbæta húsnæði Landspítalans í Fossvogi fyrir flutning göngu- og endurkomudeildar bæklunarlækna þangað og ætti því verkefni að ljúka í febrúar eða mars, segir hann.

Í byrjun mánaðarins fóru 27 starfsmenn bráðamóttökunnar í sóttkví eftir að starfsmaður smitaðist. Jón Magnús segir að allir hafi farið í skimun og reyndist enginn hafa smitast. Smit starfsmannsins er ekki rakið til vinnu hans á deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert