Ósk um löggiltan dómtúlk hafnað

Útlendingastofnun hafnaði ósk hjóna um að útvega þeim löggildan dómtúlk.
Útlendingastofnun hafnaði ósk hjóna um að útvega þeim löggildan dómtúlk. mbl.is/Hari

Serbnesk hjón sem eru að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi lentu í útistöðum við starfsmenn Útlendingastofnunar í viðtali þar í dag. Þegar þau mættu á staðinn fór eiginmaðurinn fram á að stofnunin útvegaði löggiltan dómtúlk. Stofnunin varð ekki við því.

Hjónin yfirgáfu þá fundarstað í stað þess að sitja fundinn með ólöggildum túlki.

Eiginmaðurinn taldi að það gæti leitt til vandræða síðar meir í ferlinu ef túlkurinn væri ekki löggiltur, en misskilningur í samskiptum hefur áður haft neikvæð áhrif á niðurstöðu umsókna hjónanna. 

Að sögn dóttur þeirra, sem er búsett á Íslandi, tjáðu starfsmenn Útlendingastofnunar hjónunum þá að ef þau yfirgæfu fundinn, kynni að fara svo að þeim byðist ekki annað viðtal. Fólkið bað um að njóta nafnleyndar.

Hjónunum þungbært 

Að sögn lögmanns hjónanna, Davor Purusic, sem starfar fyrir Rauða krossinn, er Útlendingastofnun ekki skylt samkvæmt lögum að bjóða þeim löggiltan dómtúlk.

„En hvort Útlendingastofnun ákveður að gera það eða gefa þeim annað tækifæri og bjóða þeim aftur í viðtal er eitthvað sem stofnunin verður sjálf að veita svör um,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Davor Purusic lögfræðingur.
Davor Purusic lögfræðingur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Davor segir að atburðarás dagsins hafi verið hjónunum, sem hafa áður sótt um vernd hér á landi, þungbær.

„Þau gátu ekki skilið af hverju það var ekki hægt að tryggja þeim löggiltan túlk, þannig að skilaboðin kæmust sem best til skila,“ segir hann.

Karlinn er með serbneskt vegabréf en kona hans með bosnískt. Þau mæla bæði serbókróatísku, sem var opinbert tungumál í gömlu Júgóslavíu.

Túlkurinn sem átti að annast samskipti þeirra við stofnunina í dag var frá Kanada að sögn dótturinnar og það olli hjónunum áhyggjum.

Að sögn lögmannsins ber Útlendingastofnun skylda til þess að útvega túlk. Lögin kveða þó ekki á um gæði túlkunarinnar, þ.e. hvort túlkurinn hafi tiltekin réttindi til starfsins (sjá 2. mgr. 28. gr. útlendingalaga).

Uppfært 22. október: Eiginnöfn fólksins sem fjallað er um voru fjarlægð úr fréttinni eftir að óskað var sérstaklega eftir því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert