58 smit – 78% í sóttkví

Röð í skimun vegna COVID-19 við Suður­lands­braut 34 - mynd …
Röð í skimun vegna COVID-19 við Suður­lands­braut 34 - mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls greindust 58 smit innanlands í gær og af þeim voru 78% í sóttkví en 22% eða 13 einstaklingar voru utan sóttkvíar. Nú eru 1.042 einstaklingar í einangrun með Covid-19 á Íslandi en var 1.081 í gær. Í sóttkví eru 2.049 og 1.307 eru í skimunarsóttkví.

Eitt smit er í mótefnamælingu en það er eina smitið sem greindist við landamæraskimun í gær. Tekin voru 456 sýni við landamæraskimun 1 og 2 í gær. Tæplega þúsund sýni voru tekin innanlands í gær.

31 er á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og þar af eru fjórir á gjörgæslu. Smitum hefur fjölgað mjög í elstu aldurshópunum síðustu tvo daga og eru nú 11 með Covid sem eru komnir yfir nírætt. 28 einstaklingar á níræðisaldri eru smitaðir. 

Níu börn yngri en eins árs eru í einangrun, 30 börn á aldrinum 1-5 ára eru í einangrun og 83 börn 6-12 ára. 57 börn á aldrinum 13-17 ára eru með Covid-19 í dag þannig að alls eru 179 börn smituð af kórónuveirunni í dag.

Í aldurshópnum 18-29 ára eru 299 smit, á fertugsaldri eru smitin nú 155 talsins en í aldurshópnum 40-49 ára eru þau 146. Á sextugsaldri eru 108 með Covid og á sjötugsaldri eru þeir 72 talsins. 44 eru með Covid á aldrinum 70-79 að því er fram kemur á covid.is.

Ný innlandssmit síðustu 14 daga á hverja 100 þúsund íbúa eru 227,2 og við landamærin eru þau 23,4.

Á höfuðborgarsvæðinu er 841 í einangrun og 1.621 eru í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 57 smitaðir en 108 í sóttkví. Á Suðurlandi er 61 smit en 112 í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru 43 smit og 76 í sóttkví. Á Vestfjörðum eru 14 smit og 20 í sóttkví og á Vesturlandi eru 20 smit og 82 í sóttkví. Óstaðsettir í hús eru sex smitaðir og 26 í sóttkví.

Ekkert smit er á Austurlandi en þar er einn í sóttkví. Á Norðurlandi vestra er heldur ekkert smit en þrír í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert