Katrín Tanja tryggði sér 2. sætið

Katrín Tanja Davíðsdóttir tryggði sér 2. sætið.
Katrín Tanja Davíðsdóttir tryggði sér 2. sætið. Ljósmynd/Instagram

Katrín Tanja Davíðsdóttir endaði í 2. sæti á heimsleikunum í crossfit sem lauk nú á tólfta tímanum. Eftir 12 viðureignir um helgina endaði hún með 665 stig. Í lokaviðureigninni í kvöld lenti hún sömuleiðis í 2. sæti. 

Hin ástralska Tia Clair Toomey vann keppnina í fjórða skipti á ferli sínum. Matt Fraser sigraði í karlaflokki í fimmta skipti á sínum ferli. 

Lokaúrslit heimsleikanna fóru fram nú um helgina þar sem 5 konur og 5 karlar kepptust um titilinn. Snemma varð ljóst að Toomey og Fraser myndu bera sigur út býtum og því mesta spennan yfir því hverjir myndu lenda í 2. og 3. sæti í hvorum flokki fyrir sig. 

Kari Pearce endaði í 3. sæti í keppninni en hún landaði sætinu í síðustu viðureigninni þegar hún var fyrst allra til að klára. Hún er fyrsta bandaríska konan til að komast á verðlaunapall á heimsleikunum síðan 2014.

mbl.is