Jafnvel aukning í samfélagssmitum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 90 smit kórónuveiru sem greinst hafa á síðustu dögum má rekja til Landakotsspítala. Tíu þeirra 59 innanlandssmita sem greindust í gær má rekja til Landakots. Þau smit sem standa út af eru samfélagssmit, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, sem hefði viljað sjá hraðari fækkun daglegra smita. 

„Þetta er svona á svipuðu róli getum við sagt eins og hefur verið,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. Hann telur að samfélagssmitum sé ekki að fækka eins og hann hafði vonast til. 

„Maður hefur ákveðnar áhyggjur af því að við séum jafnvel með aukningu eða alla vega ekki fækkun á samfélagssmitum. Það vekur áhyggjur af því að við gætum fengið aðra svona hópsýkingu eins og við erum búin að vera að eiga við núna.“

Bara tímaspursmál hvenær næsti kúfur kemur upp

Takmarkandi aðgerðir á landsvísu sem miða að því að minnka útbreiðslu veirunnar falla úr gildi eftir tvær vikur, hinn 10. nóvember. Á höfuðborgarsvæðinu eru harðari reglur í gildi en þær falla úr gildi eftir viku, 3. nóvember.

Er útlit fyrir að aðgerðir sem nú eru í gildi verði það eitthvað áfram? 

„Það er bara til skoðunar. Við erum bara að fara yfir það hvaða möguleikar séu í stöðunni, hvað væri líklegast til að gefa okkur meiri árangur til að ná þessari kúrvu vel niður þannig að við getum farið að slaka á öllu,“ segir Þórólfur.

„Á meðan við erum í einhverju svona millibilsástandi þar sem við erum ekki að ná þessu niður og erum með dálítinn fjölda sem er að greinast á hverjum degi þá er það náttúrlega bara tímaspursmál hvenær við fáum einhvern kúf aftur upp.“

Annar kúfur gæti haft mjög slæm áhrif

Þórólfur segir aðspurður að hann sé ekki endilega að miða við að ná samfélagssmiti niður fyrir jól, markmiðið sé einfaldlega að ná samfélagssmiti niður sem fyrst.

„Við þurfum að ná þessu vel niður vegna þess að við sjáum hvaða áhrif þetta hefur á spítalakerfið. Landspítali er kominn á neyðarstig og þetta er farið að hafa veruleg áhrif á þeirra starfsemi. Ef við fengjum annan svona kúf sem myndi endast eitthvað lengur gæti það haft mjög slæm áhrif og ég held að við þurfum bara að skoða það þannig, alveg burtséð frá því hvort jólin séu að nálgast eða ekki.“

Við værum væntanlega að horfa fram á enn verra ástand á Landspítala ef ekki hefði verið gripið inn í með hertum aðgerðum?

„Já, ég myndi halda það. Við höfum séð fækkun á tilfellum [síðan við gripum til þessara hörðu aðgerða] en mér finnst fækkunin ekki alveg nógu hröð, ég hefði viljað sjá meiri fækkun,“ segir Þórólfur.

Hnykkja á sóttvörnum innan heilbrigðiskerfisins

Eiga Íslendingar að búa sig undir öðruvísi jól? 

„Ég er að hugsa um þessa hópsýkingu, þessa bylgju núna, að ná henni niður. Ég er ekki með hugann við jólin sérstaklega.“

Spurður um verklag hvað varðar sóttvarnir innan heilbrigðiskerfisins segir Þórólfur:

„Það er samræmt verklag á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum. Það á að liggja alveg ljóst fyrir. Við erum að hnykkja á því með þessum aðilum að virkilega vanda sig núna og sérstaklega gæta að því að fólk sé ekki að mæta veikt til vinnu, allir noti hlífðarbúnað rétt o.s.frv. Þetta er það sem er alveg grunnurinn að því að það muni ganga vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert