Smitum fjölgi fram í febrúar með óbreyttum aðgerðum

Væri ekkert að gert gæti daglegum smitum fjölgað fram í …
Væri ekkert að gert gæti daglegum smitum fjölgað fram í febrúar, ef marka má líkan alþjóðlegs hóps vísindamanna undir finnskri stjórn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Daglegum smitum kórónuveirunnar hér á landi gæti farið hægt fjölgandi fram í febrúar á næsta ári, miðað við óbreyttar sóttvarnaaðgerðir. Þetta sýnir finnskt spálíkan um þróun kórónuveirunnar.

Gerir spáin ráð fyrir að fjöldi nýrra tilfella á dag nái hámarki í um 60 en lækki síðan jafnt og bítandi. Eins og greint hefur verið frá hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir boðað hertar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og verða forsendurnar því senn úreltar.

Í spánni er einnig horft til þróunarinnar, verði gripið til harðra takmarkana og nokkurs konar útgöngubanns. Er því þá spáð að tekist gæti að koma daglegum tilfellum undir 20 aðra vikuna í desember.

Smitum fækkar ekki strax, þrátt fyrir hertar aðgerðir

Vakin er athygli á finnska líkaninu í „rýni“ vísindamanna við Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala, sem birt var í dag. Þar setja hinir íslensku vísindamenn sjálfir upp tvær sviðsmyndir um mögulega þróun faraldursins miðað við forsendur um hvernig smitstuðullinn mun þróast.

Dekkri sviðsmyndin gerir ráð fyrir að þær hertu aðgerðir, sem senn verða kynntar, muni ekki hafa áhrif á smitstuðuinn strax, t.d. vegna seinkunar á innleiðingu eða lakari þátttöku almennings. Hlutfall greindra í sóttkví haldist um 50%. Í þeirri sviðsmynd gæti smitum fjölgað mjög hratt næstu tíu daga.

Í hinni sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að aðgerðirnar lækki smitstuðulinn í takt við það sem var í fyrstu bylgju faraldursins. Sú sviðsmynd bendir til þess að fjöldi nýrra smita haldist stöðugur næstu daga, en gæti svo farið lækkandi eftir tíu daga.

Bláa línan sýnir spána miðað við óbreyttar aðgerðir, en græna …
Bláa línan sýnir spána miðað við óbreyttar aðgerðir, en græna miðað við hörðustu aðgerðir. Graf/
mbl.is