Greiðir tugi milljóna eftir blekkingar

Guðmundur Björgvinsson tamningamaður á Efri-Rauðalæk.
Guðmundur Björgvinsson tamningamaður á Efri-Rauðalæk. mbl.is/Styrmir Kári

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Suður­lands yfir einum besta knapa landsins og landsliðsmanni í hestaíþróttum, Guðmundi Friðriki Björgvinssyni. Dómurinn kveður á um að Guðmundur hafi hlunnfarið eiganda hests sem knapinn tamdi og seldi síðar í umboðssölu. Er honum gert að greiða 10,4 milljónir króna í skaðabætur með dráttarvöxtum. 

Þá er honum sömuleiðis gert að greiða málskostnað upp á milljónir króna. Samkvæmt heimildum mbl.is er talið að heildarkostnaður geti hlaupið á þriðja tug milljóna. Guðmundur hafði áfrýjað dómi hérðsdóms til Landsréttar, en dómurinn stendur óhaggaður. 

Græddi tíu milljónir á sölunni

Guðmundur tók að sér að selja hestinn fyrir umbjóðanda sinn. Markaðsverð á hestinum er talið hafa verið í kringum 20 milljónir króna, en Guðmundur taldi umræddum umbjóðanda trú um að 10 milljónir króna væru eðlilegt verð. Í framhaldinu keypti Guðmundur hestinn en seldi hann svo síðar fyrir 20 milljónir króna til annars aðila. 

Landsréttur tók með öllu undir það sem fram kom í dómi héraðsdóms. Lesa má nánar um málið í fréttinni hér að neðan. 

mbl.is