Helga fyrsta konan sem ritstýrir Læknablaðinu

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir er nýr ritstjóri Læknablaðsins.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir er nýr ritstjóri Læknablaðsins. Ljósmynd/Aðsend

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir læknir hefur verið ráðin ritstjóri Læknablaðsins en hún er fyrsta konan í 106 ára sögu blaðsins til að gegna því starfi. Helga Ágústa er sérfræðingur í innkirtlalækningum og klínískur prófessor við Háskóla Íslands. 

„Ég hlakka til að taka við þessu nýja verkefni af afar hæfum forverum mínum og mun leitast við að gera gott blað betra. Læknablaðið hefur grundvallarhlutverk í miðlun vísinda í læknisfræði á Íslandi og er mikilvæg rödd lækna á Íslandi í öllu sem snertir heilbrigðismál,“ segir Helga Ágústa samkvæmt frétt Læknafélags Íslands, sem gefur út Læknablaðið.  

Fráfarandi ritstjóri Magnús Gottfreðsson segist bera fullt traust til Helgu Ágústu, og að hún hafi verið „einn af öflugustu talsmönnum blaðsins um árabil“.

Auk þess að gegna prófessorsstarfi við HÍ hefur Helga Ágústa rekið eigin lækningastofu um árabil ásamt því að starfa að innkirtlalækningum og lyflækningum á Landspítala. Hún lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla 2002 og er formaður félags um innkirtlafræði, varaformaður prófessoraráðs Landspítala og umsjónarlæknir með rannsóknarverkefnum sérnámslækna á lyflækningasviði.

Frétt Læknafélags Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina