Ég óttaðist mest að deyja

Beta Reynis hefur staðið af sér margan storminn á lífsins …
Beta Reynis hefur staðið af sér margan storminn á lífsins vegferð og segist nú hafa fundið hamingjuna. Hún tók vitundarvíkkandi lyf sem hún segir hafa breytt lífi sínu. mbl.is/Ásdís

Lífið fer oft undarlegar krókaleiðir og áföll dynja á sem enginn getur séð fyrir. Líkaminn getur gefið sig án fyrirvara og í sálinni er stundum einungis myrkur og sorg. Það hefur Elísabet Reynisdóttir reynt á eigin skinni. Þessi rúmlega fimmtuga flotta kona hefur lent í meiri hremmingum í lífinu en við flest. Í nýrri bók sem Valgeir Skagfjörð skrifar segir Beta frá lífi sínu, sorgum og áföllum og hvernig hún vann úr þeim. Bókin er ekki ævisaga, heldur þroskasaga, enda er lífið bara rétt að byrja hjá Betu sem stendur nú á tímamótum. Heilsan og hamingjan er nefnilega loksins komin til baka eftir miklar þrekraunir.

Blaðamaður hitti Betu á skrifstofu hennar, en hún segist vera í draumavinnunni sem næringarráðgjafi og fyrirlesari. Beta lagði spilin á borðið í bókinni en þar segir hún frá lífshlaupi sínu og hvernig hún komst loks í höfn.

Fór heim sjö mánuðum síðar

Þegar Beta var um þrítug var hún í sambúð með tvö lítil börn, fimm ára dreng og nýfædda stúlku. Lífið virtist brosa við unga parinu.

„Ég var alltaf mjög frísk en á þessum tíma var ég að misbjóða mér með streitu. Ég vann mikið og fann það þegar ég fór í fæðinguna að ég var líkamlega ofboðslega þreytt og ég var of þung. Ég hafði gengið mjög nærri mér. Fæðingin var í raun ekkert erfið en ég var mjög blóðlaus eftir fæðinguna. Mér var gefið blóð, þótt ég hefði verið algjörlega mótfallin því. En það var ekkert annað hægt. Og eftir það varð heilsa mín sífellt verri. Ég hef oft spáð í það hvort blóðgjöfin hafi verið áhrifavaldur. Þegar dóttir mín var aðeins um tveggja mánaða gat ég ekki vaknað til að gefa henni brjóst. Í janúar fór ég að fá skrítna tilfinningu í höndum, eins og vöðvabólgu. Það fór svo niður í fætur og ég fann fyrir máttleysi um allan líkamann og ofboðslegum sársauka,“ segir Beta og segist ekki hafa getað lyft hlutum á þessum tíma, eins og burðarstóli ungbarnsins.

„Það fannst ekkert að mér og svo er ég svo mikill töffari. Ég var í afneitun að það væri eitthvað alvarlegt að,“ segir hún.

 „Ég var líka orðin óstöðug á fótum og þetta var allt frekar undarlegt. Ég gat ekki skipt á barninu því fínhreyfingar voru ekki til staðar. En afneitunin er sterk; ég vildi trúa því af öllu hjarta að þetta væri bara vöðvabólga,“ segir hún.

„Svo kom áfallið. Ég vissi það þegar ég var var eitt sinn úti að borða með vinkonum mínum og fann að ég gat ekki kyngt að það væri eitthvað alvarlegt að. Ég hringdi þá á heilsugæslustöðina og náði akkúrat sambandi við lækni sem þekkti strax öll einkennin. Hún sagði mér að koma strax,“ segir Beta og segist í kjölfarið hafa greinst með sjálfsofnæmissjúkdóminn Guillain-Barré-heilkenni.

„Heimilislæknirinn sendi mig beint upp á spítala, því hana grunaði strax að ég væri með þennan sjúkdóm. Ég mætti þangað með tannbursta og eitt tímarit, haldandi að ég yrði kannski lögð inn eina nótt. Ég fór heim sjö mánuðum síðar.“

Lömuð á Grensás

Betu var strax gefið mótefni til að efla ónæmiskerfið og lá hún inni í tíu daga. Þrátt fyrir það hrakaði henni hratt.

„Ég datt á Borgarspítalanum og lamaðist meira, en náði að hanga í göngugrind. Ég var send þaðan á Grensás og þá datt ég aftur og var þá endanlega lömuð.“

Í bókinni lýsir Beta þessu svona: „Nú stendur hjólastóll undir glugganum sem mér er ætlað að setjast í. Ég er reið. Ég hvæsi á starfsfólkið: „Viljið þið taka burtu þennan hjólstól.“ Ég sný upp á mig og geri tilraun til að velta mér til veggjar en get auðvitað engan veginn snúið mér. Hins vegar ætla ég mér ekki að setjast í þennan hjólastól. Samt er ég lömuð. Ég er líka lömuð af hræðslu en læt samt engan bilbug á mér finna og ítreka ósk mína um að hjólastóllinn verði fjarlægður úr herberginu.“

Þú ert þarna rúmlega þrítug með fimm ára barn og annað nokkurra mánaða, allt í einu lömuð á Grensásdeildinni. Hvernig tókstu þessu öllu saman?

„Ég tók þessu ótrúlega vel á þessum tíma. Það er þetta með hetjuskapinn. En ég var samt alveg óttaslegin. Ég óttaðist mest að deyja,“ segir Beta og útskýrir að sumir sem sjúkdóminn fá lenda í öndunarvél og ekki allir lifa hann af. Flestir jafna sig að mestu á innan við ári, en lömun er algeng í ferlinu.

„Ég gat ekki sagt frá óttanum mínum og það var ekki fyrr en ég vann að þessari bók að ég skildi óttann; gat tekið hann í sátt og sýnt honum virðingu. Ekki lokað hann niðri í djúpi sálarinnar og leyft honum að dvelja þar og valda mér skaða. Með þessari bók fékk ég að sjá hversu mikið afl óttinn er og andstyggilegur ef við leyfum honum að hafa yfirhöndina.“

Var á hræðilegum stað

Hvað tók við að lokinni meðferð á Grensás?

„Í einu orði sagt hræðileg ár. Það tók mig sjö ár að ná heilsu, en ég þjáðist af síþreytu og ofboðslegum verkjum. Ég man ég opnaði augun á morgnana ofurþreytt og kvalin. Ég gat með herkjum komið tveimur börnum í skóla og leikskóla og fór svo aftur heim og svaf fram yfir hádegi. Ég náði kannski að fara í mesta lagi út í búð áður en ég náði í stelpuna á leikskólann. Ég var alltaf heima og lifði bara í þessu afmarkaða umhverfi,“ segir Beta og segir að árið 2003 hafi hún fengið streptókokka í blóðið og þar með var botninum náð heilsufarslega. Hún endaði í endurhæfingu á Reykjalundi. Það var engin önnur leið en upp.

„Ein vinkona mín sagði að þetta gæti ekki átt að vera svona, ég væri meira dáin heldur en lifandi,“ segir Beta og segir að hún hafi smátt og smátt náð heilsu til að lifa. Hún komst aftur út á vinnumarkaðinn, þótt það hefði tekið mörg ár að ná því markmiði.
En þrátt fyrir að líkamleg geta hafi smátt og smátt komið til baka, leitaði Beta mikið í mat á þessum árum og segir að andlega hliðin hafi ekki verið góð.

 „Ég var lág í öllum vítamínum og líkaminn í slæmu formi. Ef ég hefði fengið réttu aðstoðina þarna, tel að ég hefði getað náð mér miklu fyrr. Ég bjargaði mér sjálf með því að fara til Danmerkur í næringarþerapíu, sem var kraftaverki líkast að ég gæti. Ég var lifandi dauð og það var bara eins og einhver hefði rétt mér súrefnisgrímu. Ég flakkaði á milli landanna en ég fór einu sinni í mánuði út í námið. Þar hófst minn bataferill. Ég bjargaði mér með réttri næringu, með félagslegum tengslum og með því að lifa lífinu. Ég segi alltaf að ég hafi farið í næringarþerapíu til að bjarga sjálfri mér. Núna veit ég hvað lífsgæði skipta miklu máli sama hvað er að hrjá okkur. Þarna var ég á hræðilegum stað. Og andlega leið mér illa og ég hefði sárlega þurft hjálp,“ segir hún og segir að á þessum tíma hafi allt þetta álag komið niður á sambandinu hennar og makans, eðlilega.

„En við náðum að sigla í gegnum veikindin. Þetta var líka vond staða fyrir hann, ekki gat hann farið frá veikri konu með tvö lítil börn,“ segir Beta og segir þau hafa með seiglu náð 23 árum saman áður en til skilnaðar kom.

Vildi binda enda á lífið

„Árið 2016 gerðust margir erfiðir hlutir. Ég tók mastersverkefnið mitt. Ég var í sjálfsskoðun og sambandið mitt og eiginmannsins hékk á bláþræði. Því fór sem fór og ég var ástfangin af öðrum manni og bað strax um skilnað enda var ljóst að við vorum að sigla í strand,“ segir Beta. Hjónabandið endaði, en samband Betu við nýja manninn entist ekki.

„Eigum við ekki bara að trúa því að hann hafi verið sendur inn á leiksviðið til að breyta málunum, ég veit það ekki. En þetta tvennt; skilnaður minn og þetta stutta ástarsamband, kom mér á myrkasta stað sem ég hef upplifað. Ég hafði upplifað líkamlega bugun en þarna upplifði ég algjört andlegt hrun,“ segir Beta og segist hafa farið niður í svartasta hyldýpi.

 „Ég gekk svo langt að það munaði litlu að ég mundi endanlega enda þetta líf. Það var ekki úthugsað en mér leið svo illa að þegar ég var að keyra niður Holtavörðuheiði upplifði ég þann dimmasta stað sem ég hef verið á og algjört helvíti, ég var ekki með sjálfri mér og ég sá bara svart. Ég fann að ég gat ekki meir. Ég ætlaði að keyra framan á stóran vörubíl. Þetta var ekki rökrétt hugsun en það var bara allt svart. En eitthvað kippti mér úr þessari hugsun. Og ég get sagt þér það, eftir að hafa upplifað bæði líkamlegt og andlegt hrun, að andlegt hrun er það viðbjóðslegasta sem til er,“ segir Beta sem leitaði sér hjálpar á þessum tíma. 
„Ég var í mikilli sorg. Ég fór til geðlæknis, sálfræðings, á Al-Anon-fundi og leitaði til vina minna. Ég var komin í rosalega meðvirkni og andlega bugun. Eftir skilnaðinn þurfti ég að flytja, ganga frá öllu og hugsa um alla, og ég bara hrundi.“

Að opna á sársaukann

Beta segir að upphafið að bókaskrifunum hafi verið að hún hafði farið í nokkur viðtöl og var í kjölfarið beðin um að skrifa bók um næringarfræði og hvernig hún hefði jafnað mig á heilsubrestinum.

„Ég fann að ég gat ekki meir. Ég ætlaði að …
„Ég fann að ég gat ekki meir. Ég ætlaði að keyra framan á stóran vörubíl. Þetta var ekki rökrétt hugsun en það var bara allt svart. En eitthvað kippti mér úr þessari hugsun,“ segir Beta sem fór andlega niður í dýpstu dali. mbl.is/Ásdís

 „En sá ritstjóri datt út. Á sama tíma hafði ég hitt Valgeir í gegnum andlegan hóp sem ég tilheyri. Eitthvað hvíslaði að mér að hafa samband við hann og ég hringdi í hann. Hann var þá staddur í fjallgöngu og ég spurði hvort hann vildi vera ritstjóri bókar minnar. Hann sagði bara strax já, eins og hann hefði verið að bíða eftir þessu símtali. Kvöldið sem ég hitti hann var ég illa fyrirkölluð þannig að við ákváðum að fara saman í sumarbústað um þá helgi. Á öðrum degi segir hann að bókin eigi ekki að vera um næringarfræði og batann, heldur vill hann segja mína sögu í heild. Við byrjuðum á bókinni en ég vildi hætta við hana; ég vildi ekki opna á þetta flóð, þennan sársauka. Mér fannst líka erfitt að það myndi halla á minn fyrrverandi mann, því ég myndi auðvitað þurfa að tala um erfiðu árin í kringum veikindin. En Valgeir sagði að ég myndi engan meiða; hann væri að segja mína sögu.“

Þráhyggjan var að drepa mig

Á síðasta ári steig Beta skref sem hún segir hispurslaust frá í bókinni; skref sem hún segir hafa breytt lífi sínu.

„Ég fór í ayahuasca-meðferð í desember. Ég vissi varla hvað þetta var þá. Þetta er hugvíkkandi efni og ég var síðust allra til þess að fara að taka þetta. En einhvern veginn hefur lífið leitt mig áfram í ótrúlegustu ævintýri,“ segir hún og segist hafa hitt fyrir tilviljun fólk sem tengist þessum meðferðum. Forvitnin vaknaði.

„Á þeim tíma var ég enn alltaf með hnút í maganum, alltaf með kvíða og sé það núna að ég var haldin mikilli þráhyggju. Mér var sagt að ayahuasca-meðferð gæti hjálpað fólki að vinna úr áföllum og gæti einnig virkað vel á þráhyggju og fíkn. Ég hafði átt kærasta veturinn áður í sjö mánuði og var ekki alveg sátt við að hætta með honum, og endaði með þráhyggju af ástarsorg til hans. Þráhyggjan var að drepa mig. Ég fór á botninn og áttaði mig á því og á undarlegan hátt, eins og svo margt í lífi mínu, þá hitti ég rétta fólkið á réttum tíma og ég skráði mig í ayahuasca-meðferð,“ segir Beta og glottir yfir þessu og horfir út um gluggann, greinilega hugsi.

 „Þetta var ótrúleg upplifun. Ég fann fyrir öllum tilfinningum í heiminum. Ég fæ lömunina mína, ég upplifi tilfinningar tengdar eldgosinu. Ég sá ekki sýnir en sá sjálfa mig í aðstæðum og sá nýjar víddir og liti. Fyrra kvöldið kýldist ég ofan í dýnuna sem lömuð og ég grét og grét og grét. Ég vissi ekki hvaðan gráturinn kom. Ég ældi mikið og leyfði mér það. Ég fór í huganum aftur á Grensás og sá alvarleikann og sá hversu hrædd ég hafði verið þar. Þessi upplifun var eins konar speglun og ég fæ þarna að sjá þetta og skilja. Ég fæ að bera virðingu fyrir mér að hafa verið svona hrædd.“ 

Saman í stormi

Bókarskrifin hófust í lok apríl og kemur bókin Svo týnist hjartarslóð út nú um helgina. Brynhildur Karlsdóttir var Valgeiri og Betu innan handar sem ráðgjafi.

Bókarskrifin hafa þá verið mikil vegferð?

Bókin Svo týnist hjartaslóð kemur út í vikunni.
Bókin Svo týnist hjartaslóð kemur út í vikunni.

„Já. Ég er búin að ganga í gegnum helvíti með því að losa þetta út, með svo góðum árangri að ég hef aldrei verið eins hamingjusöm. Mér hefur aldrei liðið eins vel á ævinni. Ég hef grátið í fanginu á Valgeiri. Ég hef setið með æludall fyrir framan hann. Ég hef viljað hætta þessu. Við höfum tekið alls konar dýfur en það hefur aldrei hallað á okkar samvinnu. Það er eins og við höfum unnið sem einn maður saman í stormi.“

Ítarlegt viðtal er við Elísabetu Reynisdóttur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.  


Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert