„Unglingarnir eru þreyttir“

„Unglingarnir eru þreyttir,“ segir Ólafur Þór Jónsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Buskans, og á við Covid-þreytu hjá hópnum. Merki séu um að unga kynslóðin fari ekki jafn vel eftir tilmælum og í fyrstu bylgju. 

Andrea Arna Gylfadóttir sem er nemandi í tíunda bekk í Vogaskóla tekur undir orð Ólafs Þórs og nefnir dæmi um að krakkar hafi verið að halda partý á meðan strangar samkomutakmarkanir séu í gildi. 

Rætt er við þau í myndskeiðinu hér að ofan um hvernig hægt sé að halda tengslum hjá hópnum á þessum krefjandi tímum. Í félagsmiðstöðinni sem er innan Vogaskóla í Reykjavík hafa starfsmenn þurft að bregða sér í hlutverk samfélagsmiðlastjarna til að halda tengslum við krakkana og í myndskeiðinu má t.a.m. sjá metnaðarfullt dansatriði þeirra á Tik-Tok. 

Eftir fremsta megni er nú reynt að halda félagslegri virkni með stafrænum hætti á Instagram, Facebook, Snapchat og Discord. Discord þekkja ekki allir en forritið er nýtt sem eins konar spjallherbergi þar sem samskipti fara fram á sama tíma og viðburðir á borð við tölvuleiki, bingó eða önnur spil.

Um 100 unglingar eru í skólanum og Ólafur Þór segir alveg ljóst að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því markmiði að bæla faraldurinn niður leggist þungt á marga þeirra. 

Stafrænar félagsmiðstöðvar og vettvangsvinna 

Í vor þegar ástandið var með svipuðum hætti byrjuðu félagsmiðstöðvar í Reykjavík og víðar að prufa sig áfram með það sem var kallað rafrænar félagsmiðstöðvar. Það hljómar kannski eins og eitthvað sem er í frekar föstum skorðum en má í raun segja að sé bara viðleitni starfsfólks til að ná til krakkanna með stafrænum leiðum.

Settir voru upp viðburðir af ýmsu tagi: bingó, spjallherbergi og jafnvel voru starfsmenn bara með útsendingar heiman frá sér í gegnum Instagram eða Facebook þar sem þeir sýndu frá því þegar þeir voru að baka. Aðaláherslan er að ná til krakkanna og láta þá vita að þeir geti komist í félagslega virkni í gegnum leiðir af ýmsu tagi en ekki síður er mikilvægt að þeir finni að þeir geti leitað til starfsfólksins í félagsmiðstöðvunum. Krakkarnir þekkja það persónulega og leita gjarnan til þeirra með vandamál. „Það er líka verið að sinna þessu hlutverki, að láta krakkana vita að það sé hægt að nálgast starfsfólkið,“ segir Hulda Valdís Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri hjá skóla- og frístundasviði borgarinnar sem hefur yfirsýn yfir starfið. 

Unglingar á góðri stund. Þessi mynd var tekin fyrr á …
Unglingar á góðri stund. Þessi mynd var tekin fyrr á árinu á árshátíð Samfés í Laugardalshöll. Viðburðir af þessu tagi verða varla á döfinni í bráð. mbl.is/Árni Sæberg

Samhliða þessu fer starfsfólk út á vettvang til að athuga með hópamyndun eða annað í þeim dúr. Þá setur það upp grímu og heldur tveggja metra fjarlægð en markmiðið er að fylgjast með og vera til staðar. „Af því að við vitum að þau eru orðin mjög þreytt á þessu ástandi alveg eins og við fullorðna fólkið,“ segir Hulda.

Stór hópur sem næst ekki til

Nú er líka að koma betur í ljós að það er hópur unglinga sem í núverandi ástandi hefur fallið á milli skips og bryggju. Unglingar sem voru að byrja í menntaskóla í haust en hafa lítið náð að komast í takt við félagslíf í skólanum vegna faraldursins og Hulda segir að þetta sé hópur sem fólk hafi töluverðar áhyggjur af. Dæmi eru um að krakkar í þessum hópi hafi viljað taka þátt í starfinu í félagsmiðstöðvunum áður en þær lokuðu en þar sem þær eru einungis hugsaðar fyrir krakka upp að sextán ára aldri hafi það ekki verið í boði. „Þetta er hópur sem við höfum miklar áhyggjur af en getum því miður ekki sinnt,“ segir Hulda Valdís í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert