Katrín opnaði heimsþingið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði Heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu í dag. Bauð hún kvenleiðtoga velkomna sem allar taka þátt yfir vefinn að þessu sinni.

Að loknu opnunarávarpi tók forsætisráðherra þátt í umræðum um kynbundið ofbeldi, áhrifamátt kvenna í faraldri kórónuveirunnar og áhrif hans á jafnréttismál í alþjóðlegu samhengi.

Sjaldan mikilvægara að ræða jafnréttismál

Auk hennar tóku þátt þær Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands sem stýrði umræðunum, Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women, og Amanda Nguyen, stofnandi og framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Rise.

„Það er ánægjulegt að hægt hafi verið að halda Heimsþing kvenleiðtoga með rafrænum hætti í ár, en sjaldan hefur verið mikilvægara og meira aðkallandi að ræða jafnréttismál í víðum skilningi og þvert á landamæri. Við sjáum bakslag í jafnréttismálum um allan heim. COVID-19 hefur aukið þetta bakslag eins og sést á auknu heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi,“ er haft eftir forsætisráðherra í tilkynningu.

Vigdís sérstakur verndari

„Auk þess sjáum við að konur taka á sig auknar byrðar vegna áhrifa faraldursins. Við sem sitjum við stjórnvölinn þurfum að horfast í augu við þessa þróun og setja jafnréttismálin í forgang í öllum okkar aðgerðum þegar við byggjum upp samfélögin okkar eftir þennan faraldur.“

Heimsþingið fer fram undir kjörorðinu „Power together“ og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er sérstakur verndari þess. Heimsþingið fer fram rafrænt og um 700 kvenleiðtogar frá um 120 löndum taka þátt í þinginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina